ÖSE-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:58:32 (3448)

1996-02-29 14:58:32# 120. lþ. 99.5 fundur 312. mál: #A ÖSE-þingið 1995# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:58]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Víða er ótvírætt um að ræða samkeppni og skörun varðandi verkefni hjá alþjóðasamtökum og stofnunum. Það gildir um Evrópuráðið og fleiri slík samtök og eins þessi hér. Það er erfitt að finna þann aðila sem á að greina þarna á milli og koma á æskilegri verkaskiptingu þar sem þetta eru sjálfstæð samtök ríkja. Það er erfitt fyrir einhvern utanaðkomandi að blanda sér í þann hóp ef ekki er samstaða í hópnum um verkefni. Ég tel t.d. að Atlantshafsbandalagið hafi verið að breyta um verkefni í framhaldi af kalda stríðinu, m.a. til að halda sér á lífi og taka til við verkefni sem önnur alþjóðasamtök hafa sumpart verið að sinna á sama svæði. Dæmi um þetta eru auðvitað víða. Það má hins vegar ekki verða til þess að menn missi sjónar af því markmiði sem viðkomandi samtök eiga að sinna og hafa verið mynduð um til að sinna. Ég fullyrði að það hefur ekkert komið í staðinn fyrir Ráðstefnuna um samvinnu og öryggi í Evrópu. Meðan svo er þurfum við að hlúa að þeim samtökum til þess að líklegra sé að þau skili þeim árangri sem skiptir mjög miklu máli fyrir Evrópu, þar á meðal Ísland.