Norður-Atlantshafsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 15:12:03 (3451)

1996-02-29 15:12:03# 120. lþ. 99.6 fundur 335. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1995# skýrsl, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[15:12]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur fyrir þessa ágætu skýrslu af störfum sendinefndar okkar hjá Norður-Atlantshafsþinginu. Ég hjó eftir því að þar, eins og reyndar á þingum Vestur-Evrópusambandsins þar sem ég á sæti, hefur átt sér stað talsverð umræða um hlutverkaskiptin milli Vestur-Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins. Mér sýnist að niðurstaðan sé nokkuð í sömu veru og nýjasta niðurstaða sérstaks aukaþings þings Vestur-Evrópusambandsins í Lundúnum núna fyrir tveimur vikum. Menn eru að reyna að gæta að því að búa ekki til einhvers konar tvöföldun á styrk. Menn eru að reyna að skapa verkaskiptingu sem býr til sterka Evrópustoð í formi Vestur-Evrópusambandsins án þess að skaða Atlantshafsbandalagið.

Það er alveg rétt sem fram hefur komið, bæði hjá hv. þm. og reyndar hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni áðan eða hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, að eðli Atlantshafsbandalagsins er að breytast. Ég minnist þess að ég hlustaði fyrir nokkrum árum á ræðu þáv. formanns Alþb., hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar sem brá yfir sig kufli spámannsins og var að velta fyrir sér hver yrði þróun NATO. Hann vísaði í skýrslu aðalritara Sameinuðu þjóðanna og ræddi möguleikana á því að NATO mundi þróast í að verða eins konar friðargæslusveit, jafnvel undir Sameinuðu þjóðunum. Ég minnist þess líka að ýmsum þótti þetta hlálegt á þeim tíma. Ég hef ekki þau alþjóðlegu sambönd sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur og gat þess vegna ekki að öllu leyti metið réttmæti þessa. En það kom í ljós að allt það sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, þáv. formaður Alþb., sagði um breytingarnar á þróun Atlantshafsbandalagsins hefur reynst vera rétt. Atlantshafsbandalagið er skyndilega komið í það hlutverk að halda friðinn í Evrópu. Það er út af fyrir sig sögulega merkilegt að ég ekki vilji segja kaldhæðnislegt að það þurfti formann Alþb., sem hefur allra stjórnmálaflokka mest barist gegn Atlantshafsbandalaginu, til að draga upp þessa framtíðarmynd af NATO fyrir íslensku þjóðina. (Gripið fram í: Og það tókst.) Enn merkilegra er að hún reyndist algerlega rétt. Þeir menn í þessum sölum sem skilja best eðli og framtíð Atlantshafsbandalagsins eru með öðrum orðum hv. þingmenn Alþb. (SvG: Lengi er von á einum.) Lengi er von á einum, hrópar hér fram í sá þeirra sem á litríkasta fortíðina í þessum efnum. En kannski er það einmitt vegna fortíðar hv. þingmanna Alþb. sem þeir skilja framtíðina svona vel. Ekki skal ég neitt um það segja enda deili ég með þeim svolitlum parti af þessari fortíð og er ekki alsaklaus af þessum viðhorfum sem til að mynda hv. þm. Svavar Gestsson er þekktur fyrir. Þó verð ég að segja að mig brast gersamlega spádómsgáfu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar en hann hafði rétt fyrir sér.

[15:15]

Í dag er það svo að Atlantshafsbandalagið er orðin trygging fyrir friði í Evrópu og það sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði um þróun þess fyrir nokkrum árum hefur reynst rétt. Ég er viss um að hann muni nota tækifærið í þessum umræðum á eftir til þess að segja fyrir um hvernig það muni þróast á allra næstu árum.

Eitt langar mig sérstaklega til að gera að umræðuefni og það eru hugmyndir um stækkun Atlantshafsbandalagsins. Hvarvetna sem maður kemur á þing Vestur-Evrópusambandsins eða á Norður-Atlantshafsþingið, þar sem verið er að tala um öryggi, er jafnhliða verið að tala um stækkun en hvergi er þetta annað en orðin tóm. Ég hegg eftir því þegar við fulltrúar Íslands sitjum t.d. á þingum Vestur-Evrópusambandsins heyrum við að það er búið að búa til órjúfanlegan hring. Ef þjóðir ætla sér að verða aðilar að Vestur-Evrópusambandinu þurfa þær að verða aðilar að NATO. En til þess að nýjar þjóðir komist inn í NATO þurfa þær að verða aðilar að Evrópusambandinu. Þar með eru forkólfar þessara svokölluðu lýðræðisþjóða sem í orði kveðnu eru alltaf að tala um að það eigi að stækka sambandið búnir að búa til múra sem enginn kemst yfir. Hv. þm. Sólveig Pétursdóttir sagði áðan orð sem urðu þess valdandi að ég kvaddi mér hljóðs fyrst við höfum tækifæri til þess að eiga orðastað við hæstv. utanrrh. Hún sagði: ,,Solana sagði í viðræðum við utanríkismálanefnd þingsins, við hæstv. utanrrh. og á þinginu í febrúar: Spurningunni um stækkun sambandsins verður að svara á þjóðþingunum.`` Hvað skortir til þess? Það skortir umræðu á þjóðþingunum.

Ég dró upp myndina af vítahringnum sem er þess valdandi að engin ný þjóð kemst inn í NATO eða Vestur-Evrópusambandið vegna þess að forsendan að fullri aðild að hvoru tveggja er nú um stundir aðildin að Evrópusambandinu. Hvaða afstöðu ætlum við Íslendingar að taka í þeim efnum? Mér finnst að þjóðir eigi að fá að ráða framtíð sinni sjálfar. Það eru þrjár litlar þjóðir sem Íslendingar bera fyrir brjósti umfram aðrar og það eru Eystrasaltsþjóðirnar. Þegar Solana, framkvæmdastjóri NATO, kom til fundar við utanrmn. Alþingis var sérstaklega eitt mál sem bæði formaður nefndarinnar og varaformaður og fyrrv. utanrrh., sem var líka staddur á fundi nefndarinnar, ítrekaði gagnvart Solana: Við styðjum það að Eystrasaltsþjóðirnir þrjár fái aðild að NATO, fái aðild að Vestur-Evrópusambandinu, vegna þess að þær vilja það sjálfar, vegna þess að þær telja sjálfar að þannig sé öryggi þeirra borgið.

Við skulum ekki gleyma því að allur hinn frjálsi heimur stóð áratugum saman í skuld við þessar þrjár þjóðir vegna þess að árið 1940 kom engin þeim til varnar þegar sovéski björninn slæmdi hrammi sínum á þær. Nú tel ég að Íslendingar og aðrir eigi að gjalda þessa skuld. Þeir eiga að taka upp baráttu fyrir því að þessum þremur þjóðum verði, fyrst þær vilja það sjálfar, hleypt inn í Vestur-Evrópusambandið með fullri aðild og hleypt inn í NATO með fullri aðild vegna þess að þær sjálfar halda því fram og telja að þetta sé eina tryggingin fyrir öryggi þeirra. Við skulum ekki gleyma því að núna magnast viðsjár í hinum gömlu ríkjum Sovétríkjanna. Við skulum ekki gleyma til að mynda yfirlýsingum fyrrv. utanríkisráðherra Rússlands sem sagði það berum orðum í apríl á síðasta ári að svo kynni að fara að til þess að tryggja hlut og rétt rússneskumælandi minnihlutahópa þyrftu Rússar að senda herlið aftur inn í þessi ríki. Hvað þýðir þetta? Fyrst og fremst er þetta ógnun gagnvart Eystrasaltsríkjunum og þess vegna hafa þessar þrjár þjóðir á þingum sínum, þjóðþingunum og líka í sínu sameiginlega þingi, aftur og aftur ítrekað ósk sína um að fá það öryggi sem felst í aðild að þessum samtökum. Hver er stefna Íslands í því?

Ég ætla ekki að fara að ráðast á hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson fyrir að hafa ekki markað sérstaka stefnu um það vegna þess að fyrri ríkisstjórn, sem ég átti aðild að, var ekkert betri. Þar gilti það að við studdum þessar þjóðir og gerðum það mjög dyggilega eins og fyrrv. utanrrh. gerði. En hefur Ísland einhvers staðar gengið fram fyrir skjöldu innan Vestur-Evrópusambandsins og innan Atlantshafsbandalagsins og sagt: Það er stefna íslensku ríkisstjórnarinnar að Eystrasaltsþjóðirnar þrjár fái aðild að þessum samtökum? Við þingmennirnir höfum gert það. Ég hef haldið ræður um það á þingi Vestur-Evrópusambandsins og ég er viss um að aðrir þingmenn í þessum sölum, sem þar eiga aðild, hafa líka gert það. En það sem vantar er afl ríkisstjórnar. Það vantar formlegt afl ríkisstjórnarinnar. Þess vegna spyr ég hæstv. utanrrh.: Mun íslenska ríkisstjórnin beita sér fyrir því að ósk Eystrasaltsríkjanna um aðild að Atlantshafsbandalaginu og Vestur- Evrópusambandinu verði framkvæmd á næstunni?