Norður-Atlantshafsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 15:39:20 (3454)

1996-02-29 15:39:20# 120. lþ. 99.6 fundur 335. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1995# skýrsl, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[15:39]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir ræðuna, mér finnst hann nálgast hlutina með skynsamlegum hætti, vil ég kvitta fyrir það að hafa tekið eftir því sem hann sagði og leggja á það áherslu að mér finnst að umræðan um utanríkismál bæði nú og oft áður hafi verið um fortíð, um fortíðarvandamál. Umræðan hér í sambandi við skýrslurnar á hverjum tíma snýst fyrst og fremst um það hvernig Alþingi kemur að þessari fortíð og hinum ýmsu samtökum sem þingmenn eru hluti af. Hins vegar hefur ekki, því miður, farið hér fram umræða um heildarstefnumótun í utanríkismálum með hliðsjón af þeirri framtíð sem nú blasir við og er allt önnur en við mörg hver eða öll hér höfum alist upp við. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að ágreiningurinn um utanríkismál hefur verið meginágreiningur íslenskra stjórnmála undanfarna áratugi. Margt bendir til þess að þeir hlutir liggi núna öðruvísi. Mér finnst það skylda okkar hér á Alþingi og skylda ráðherranna og ríkisstjórnarinnar alveg sérstaklega að stuðla að því að sem víðtækust sátt geti orðið, víðtækari en hefur verið um þá stefnumótun til framtíðar sem þarf að eiga sér stað í utanríkismálum. Þetta segi ég hér, hæstv. forseti, í tilefni af ræðu hæstv. utanrrh. og hvet hann til þess að beita sér fyrir því að Alþingi geti haft hér ítarlega umræðu um þessa stefnumótun til framtíðar þar sem menn losi sig við þann vanda sem menn þekkja frá liðnum árum og áratugum og er yfirleitt nægilega mikið ræddur hér.