Norður-Atlantshafsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 15:41:20 (3455)

1996-02-29 15:41:20# 120. lþ. 99.6 fundur 335. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1995# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[15:41]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram að ég hef út af fyrir sig engan áhuga á því að eyða miklum tíma í að ræða um fortíðina. Ég hef ekki verið hvatamaður að því. Síðar í vetur fer hér fram umræða um utanríkismál sem er vettvangur til að taka upp þau mál sem hv. þm. ræddi um. Ég tek undir með honum að það er mjög mikilvægt að horfa þar til framtíðar. Ég nefni t.d. afstöðuna til Atlantshafsbandalagsins. Það er ekki rétt að taka afstöðu til Atlantshafsbandalagsins eftir því hvernig Atlantshafsbandalagið var fyrir tíu eða tuttugu árum. Þótt ég hafi verið stuðningsmaður Atlantshafsbandalagsins alla tíð og hv. þm. andstæðingur þess, þá eigum við að leggja það til hliðar. Við eigum að horfa á þróun Atlantshafsbandalagsins til lengri framtíðar og þýðingu þess bandalags fyrir friðinn í heiminum og friðinn í Evrópu. Þar blasir við allt önnur mynd.

Ég lít þannig á ræðu hans að hann boði að hans flokkur sé tilbúinn til að meta þetta mál alveg í nýju ljósi og ég hef heyrt þann tón áður. Það finnst mér mikilvægt skref í íslenskum stjórnmálum. Við sem höfum lengi verið stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins eigum að meta það og taka þeirri áskorun hv. þm. að ræða þessi mál nú með hliðsjón af framtíðinni. Ég tel að það gefist gott tækifæri til þess þegar umræða fer hér fram um utanríkismál almennt síðar í vetur. Og ég skal fyrir mitt leyti leggja mig fram um að undirbúa hana sem best.