Norður-Atlantshafsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 15:55:20 (3459)

1996-02-29 15:55:20# 120. lþ. 99.6 fundur 335. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1995# skýrsl, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[15:55]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv. nefndi í ræðu sinni að hann óttaðist að þessi ,,exklúsífi`` klúbbur mundi verða áfram við lýði og það muni ekkert verða af stækkun vegna þess að menn hafi tekið upp millistigið samstarf í þágu friðar. Ég vil geta um það að tilfinning mín er sú að það muni verða af stækkuninni. Hins vegar á sú stækkun vissulega aðdraganda. Það er rétt að það er ekki nýtt að NATO sé stækkað. Spánn var t.d. ekki í NATO frá upphafi. Hins vegar felur stækkun NATO auðvitað í sér alvarlegar skuldbindingar fyrir þær þjóðir sem eru í samtökunum. Hún felur í sér skuldbindingar um sameiginlegar varnir samkvæmt sáttmála samtakanna þannig að Rússar hafa hingað til litið á þetta mál með tortryggni. Það er unnið að því að draga úr þeirri tortryggni. Ég hef ekki trú á því að NATO verði til frambúðar eins og það er nú. Eins og þessi þingmannasamtök eru t.d. ekki þau sömu núna og þau voru fyrir tíu árum þegar ég sat þar fyrst um skamman tíma. Þvílík breyting sem orðið hefur á einum áratug er ólýsanleg þar sem allar þjóðir Austur-Evrópu eru komnar inn með áheyrnaraðild að þessum samtökum.