Norður-Atlantshafsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 16:03:22 (3464)

1996-02-29 16:03:22# 120. lþ. 99.6 fundur 335. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1995# skýrsl, GHH
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[16:03]

Geir H. Haarde:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með þeim sem hafa haft orð á því hversu málefnaleg og athyglisverð umræðan hefur verið í dag. Það er ánægjuefni að menn skuli ræða alþjóðamálin eins og nú er gert á grundvelli þeirra skýrslna sem alþjóðanefndir þingsins hafa lagt fram. Það er auðvitað líka mjög ánægjulegt að maður eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson skuli nú tala um NATO eins og hann gerir, því að eins og hann sagði réttilega sjálfur fyrr í umræðunum þá var hann einu sinni annarrar skoðunar. En hann viðurkennir nú að hann hafði rangt fyrir sér þá. Við ýmsir aðrir höfðum rétt fyrir okkur. (Gripið fram í.) Við skulum ekki eyða tíma í að ræða liðna tíð í þessu efni.

Hér eru til umræðu spurningar um stækkun Atlantshafsbandalagsins og framtíð þess. Við sem áttum þess kost að ræða við framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins fyrir nokkru síðan um þau mál urðum að sjálfsögðu margs vísari. Þessi mál eru til umræðu víða. En málið er ekkert einfalt vegna þess að tryggingar á grundvelli 5. gr. Atlantshafssáttmálans eru meira en bara orðin tóm og barnaleikur. Það verður að vera hægt að framfylgja þeim. Þeir sem munu bera höfuðábyrgðina á því að hrinda þeim í framkvæmd verða að vera tilbúnir til að axla nýja ábyrgð. Að öðrum kosti er tryggingin ekki marktæk eða neins virði gagnvart þeim sem hún kynni að beinast að.

Það talar enginn um það í alvöru að gefa Rússlandi neitunarvald í þessu efni. Það dettur engum í hug. Auðvitað viljum við Íslendingar sem fyrst tryggja aðild annarra landa að þessum samtökum, þeirra sem um það biðja í Austur-Evrópu og þá ekki síst Eystrasaltslandanna. En þetta verður að gerast með trúverðugum hætti. Þessar tryggingar verða að vera þess eðlis að þeim sé trúað af öðrum og þeir sem axla ábyrgðina á þeim séu tilbúnir til þess. Þar er ég fyrst og fremst að tala um afstöðu Bandaríkjamanna, Bandaríkjaþings, öldungadeildarinnar í Bandaríkjunum. Ég er ekki búinn að sjá það enn þá að hún muni staðfesta útvíkkun Atlantshafsbandalagsins til Eystrasaltsins á meðan það liggur fyrir að það verða fyrst og fremst Bandaríkjamenn sem þurfa að taka á sínar herðar ábyrgðina á því að veita Eystrasaltslöndunum tryggingar, hugsanlega með loforðum um að beita kjarnorkuvopnum til þess að verja þau. Spurningin er: Er sú trygging, jafnvel þó hún yrði veitt, trúverðug? Mundu Bandaríkjamenn vera tilbúnir til að veita slíkar tryggingar og beita slíkum vopnum ef á þyrfti að halda? Það er náttúrlega ein af stóru spurningunum í þessu. Þess vegna er skynsamlegt að við mörkum okkur skýra stefnu. Það er skynsamlegt að fara að öllu með gát í þessu. Ég held að sú stefna sem mörkuð hefur verið af hálfu bandalagsins sé rétt og skynsamleg eins og t.d. framkvæmdastjóri bandalagsins útskýrði fyrir okkur í utanrmn. um daginn. Það er verið að ræða þessi mál við áhugasöm lönd. Málin eru í ákveðnum viðræðufarvegi. Vonandi endar það með því að áhugasöm lönd geta gengið í bandalagið og það fyrr en síðar. En við eða bandalagið skulum ekki hlaupa fram úr sjálfum okkur í þessu máli vegna þess að það getur verið mjög varhugavert.

Svo held ég að það sé heldur ekki rétt af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að blanda þessu saman beinlínis við Evrópusambandið. Það eru engin formleg skilyrði um aðild að því fyrst. Hins vegar er líklegra að það mundi ganga greiðlegar að tryggja löndum Mið- og Austur-Evrópu aðild að Evrópusambandinu en NATO þó svo að því muni fylgja margvíslegur kostnaður fyrir skattborgarana í löndum Evrópusambandsins þegar kemur að því að útfæra hina sameiginlegu landbúnaðarstefnu yfir á landbúnaðarframleiðsluþjóðirnar í Mið- og Austur-Evrópu. Það er annað mál ótengt öryggismálunum, engu að síður mjög athyglisvert, en það er ekki rétt að blanda þessu tvennu saman.