Norður-Atlantshafsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 16:10:52 (3467)

1996-02-29 16:10:52# 120. lþ. 99.6 fundur 335. mál: #A Norður-Atlantshafsþingið 1995# skýrsl, TIO
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[16:10]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Það er eins og oft áður að hér í þingsalnum spinnast athyglisverðar umræður um utanríkismál þegar skýrslum nefnda þingsins sem starfa á erlendum vettvangi er skilað. Þessar skýrslur vekja hins vegar ekki almennan áhuga í þinginu, því miður. Það verður að segjast eins og er að það er ekki í neinu samræmi við það vægi sem utanríkismál eru farin að hafa í störfum þingsins því að sú staðreynd er þó flestum ljós að þau mál sem áður voru kölluð utanríkismál ná nú yfir miklu stærri málaflokk en áður var. Mjög mikill hluti af því sem við erum að aðhafast á sviði lagasetningar sem snertir innanríkismál á sér uppsprettu nú á erlendum vettvangi. Það má því segja að verulegur hluti af umræðunni um innanríkismál sé kominn á dagskrá í utanríkismálaumræðunni. Þetta hefur fært vægi umræðunnar nær utanríkismálunum og nær þeim skýrslum sem hér eru til umfjöllunar í dag.

Ég ætla ekki að ræða þessi mál almennt en koma inn á mjög mikilvæg atriði sem hér hefur verið talað um sérstaklega. Þau snerta útvíkkun Atlantshafsbandalagsins, starfsemi Evrópusambandsins á sviði öryggismála og stöðu okkar Íslendinga varðandi þessi mál.

Að því er varðar útvíkkun Atlantshafsbandalagsins þá eru mjög gild rök fyrir því að fara sér afar varlega. Atlantshafsbandalagið hefur sýnt mikinn sveigjanleika í sínu starfi. Atlantshafsbandalagið hefur stigið margs konar skref til að koma til móts við nýjar aðstæður með samstarfi við þær þjóðir sem ekki eru meðlimir í bandalaginu og voru áður flokkaðar undir andstæðinga NATO. Að sjálfsögðu hefur það haft áhrif á hugmyndir Atlantshafsbandalagsins um útvíkkun hversu ljósar og skilyrðislausar skuldbindingar bandalagsins eru í varnarmálum. Hér var sett fram sú skoðun af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, 15. þm. Reykv., að Íslendingar ættu að ríða á vaðið og krefjast þess að það yrði stefnumál Atlantshafsbandalagsins að baltnesku þjóðirnar fengju aðgang að Atlantshafsbandalaginu. Á þessu er augljós meinbugur. Það er augljós meinbugur á því að Íslendingar geti riðið á vaðið með hugmynd af þessu tagi jafnvel þó að til þess stæðu ýmis efnislög rök. Einn af þeim meinbugum sem er á málinu er sú staðreynd að Íslendingar taka ekki þátt í og leggja ekki lið hernaðarstarfi NATO. Þeir eru ekki með her og leggja ekki mannafla til varnarstarfsemi NATO. Íslendingar munu því ekki senda hermenn á vígvöllinn ef til þess kemur þó að þeir hafi eins og réttilega er bent á lagt fram lið sitt að því er varðar sjúkraþjónustu. Það er ljóst að Íslendingar munu ekki senda menn á vígvöllinn og munu ekki taka þátt í því starfi. Þeir væru því að leggja til að aðrar þjóðir sendu sína menn á vígvöllinn ef til þess kæmi að upp kæmi mjög viðkvæm staða varðandi baltnesku löndin og þau væru meðlimir í Atlantshafsbandalaginu. Að þessu leyti á Ísland óhægt um vik að ganga fram fyrir skjöldu, fyrir svo utan hitt að ég ætla ekki að endurtaka þær röksemdir sem hafa verið færðar hér fram aðrar fyrir því að það beri að fara með mikilli gát í þessu máli.

[16:15]

Mig langar hins vegar til að nefna það að fyrir utan þau varfærnislegu en skynsamlegu skref sem Atlantshafsbandalagið hefur stigið til þess að koma til móts við nýjan veruleika er ljóst að einnig er unnið að því að nálgast vandann, þ.e. öryggismál þeirra Evrópuríkja sem standa utan Atlantshafsbandalagsins, á öðru sviði með mjög varfærnislegum hætti. Það er alveg ljóst að Evrópusambandsþjóðirnar höfðu gert ráð fyrir því áður en Berlínarmúrinn féll að styrkja starfsemi sína á varnarsviðinu. Undirbúningur Maastricht-samkomulagsins hafði staðið lengi. Þótt samkomulagið væri ekki staðfest fyrr en eftir fall Berlínarmúrsins var málið í undirbúningi áður en aðstæður breyttust í Evrópu. Það var gert ráð fyrir því að sá til þess að gera einsleiti hópur sem þá myndaði Evrópusambandið efldi mjög verulega varnarsamvinnu sína. Þessi mál voru komin á mjög verulegan rekspöl þegar aðstæður breyttust í Evrópu, Sovétríkin hrundu og ný viðhorf blöstu við að því er varðaði öryggismál. Evrópusambandið tók þá ákvörðun að opna möguleika á útvíkkun Evrópusambandsins, í kjölfar þess að Berlínarmúrinn féll. Það er rétt að menn átti sig á því að það er beint samband á milli þess að Sovétríkin hrundu, Berlínarmúrinn féll og Evrópusambandið ákvað að gera tilboð um útvíkkun Evrópusambandsins, fyrst til EFTA-þjóðanna en síðan einnig austur á bóginn. Og hvernig stóð á því að þessi breyttu viðhorf Evrópusambandsins voru í svo nánum tengslum við atburðina 1989 og 1990? Ástæðan fyrir því var sú að Þýskaland öllum öðrum fremur sá öryggishagsmunum sínum borgið í því að nýta þetta einstæða tækifæri til að færa austurlandamæri Evrópusambandsins, sem jafnframt eru austurlandamæri Þýskalands, austur á bóginn. Með öðrum orðum var ein meginástæðan fyrir því að ákveðið var í nokkurri skyndingu á árunum 1989 til 1992 að gera tilboð um að stækka Evrópusambandið öryggishagsmunir Þjóðverja sem einnar af leiðandi þjóðum í Evrópusambandinu. Þetta þýddi í raun og veru að það hlutu að koma upp ný og viðkvæm vandamál er snertu austurlandamæri Evrópusambandsins. Það var t.d. alveg ljóst að ef Finnland yrði í þeim hópi landa sem gengju í Evrópusambandið, en Finnland var einmitt eitt af þeim löndum sem átti þess kost að íhuga inngöngu í Evrópusambandið í gegnum EFTA, mundi það skapa viðkvæm vandamál á austurlandamærum Evrópusambandsins. Það er einnig alveg ljóst að þótt Finnar hafi sótt um aðild að Evrópusambandinu af ýmsum ástæðum, þá er þar ein ástæða öllum öðrum mikilvægari, en sú ástæða tengist öryggismálum. Meginástæðan fyrir því að Finnar sóttu um aðild að Evrópusambandinu var sú að með því töldu þeir sig tryggja öryggishagsmuni sína. En voru í þeim samningum um inngöngu sem Finnar gerðu við Evrópusambandið einhver ákvæði sem tryggðu öryggishagsmuni þeirra? Nei. Í þeim aðildarsamningum voru engin tryggingarákvæði að því er varðar öryggismál og Evrópusambandið telur sig nú ekki skuldbundið til þess að tryggja öryggishagsmuni Finna.

Hins vegar er vitað mál að Maastricht-samkomulagið gengur út á aukið samstarf í öryggismálum og þess vegna verður að viðurkenna að Evrópusambandið, og þá ekki síst NATO-ríkin innan Evrópusambandsins, er í mjög sérkennilegri stöðu að því er varðar Finna ef til þess kæmi að á ný yrðu þær aðstæður í Austur-Evrópu að Finnar teldu sínum öryggishagsmunum með einhverjum hætti ógnað. Það er ljóst að Evrópusambandið gæti ekki leitt þau hagsmunamál Finna hjá sér þótt engar skuldbindingar séu í aðildarsamning Finna að Evrópusambandinu. Þarna er því um mjög óljósar skuldbindingar Evrópusambandsins að ræða, en þó er ljóst að Finnar meta þær mjög mikils í sambandi við sín öryggismál. Hvers vegna nefni ég það sem möguleika að þarna kæmu upp vandamál að því er varðar þá sameiginleg landamæri Finna og Rússa? Ég nefni það vegna þess að í árásarstríði sem Sovétríkin stóðu að gegn Finnlandi voru mjög veruleg landsvæði tekin af Finnum og lögð undir Sovétríkin og eins og staðan er í dag eru þessi landsvæði innan Rússlands. Þessi mál hafa ekki verið opinberlega skilgreind sem deilumál á milli Finna og Rússa. Þó er það svo að nokkur hluti finnsku þjóðarinnar lítur svo á að þarna sé óleyst vandamál. Þetta nefni ég hér til þess að varpa ljósi á hversu flókin öryggismál Evrópu eru í raun orðin og hvernig þróun og útvíkkun Evrópusambandsins gegnir á vissan hátt millistigshlutverki í þeirri þróun sem hér var sérstaklega til umræðu, þ.e. útvíkkun Atlantshafsbandalagsins.

Þetta á við um fleiri ríki sem nú eru nýlega gengin í Evrópusambandið. Þau koma til með að njóta einhvers konar öryggis. Þótt þær skuldbindingar sem á bak við það standa séu mjög óljósar, gildir það einkum um önnur aðildarríki Evrópusambandsins sem ekki eru í NATO. Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þess að ég held að það sé rétt að þegar menn velta fyrir sér þeim skrefum sem verið er að stíga í sambandi við öryggismál af hálfu NATO er einnig verið að búa til sveigjanleika í öryggismálum á öðrum vettvangi. Það er hluti af því sem Evrópusambandið er að gera með sinni útfærslu og fellur alveg heim og saman við það hlutverk sem skilgreint er sem markmiðsatriði í Maastricht-samkomulaginu.