Fríverslunarsamtök Evrópu 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 16:24:00 (3468)

1996-02-29 16:24:00# 120. lþ. 99.7 fundur 336. mál: #A Fríverslunarsamtök Evrópu 1995# skýrsl, VE
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[16:24]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Ég kynni hér skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, fyrir árið 1995.

Starf þingmannanefndarinnar á síðasta ári tók mikið mið af þeim breytingum sem EFTA hefur gengið í gegnum á undanförum missirum. Þar ber að sjálfsögðu hæst inngöngu þriggja EFTA-ríkja í Evrópusambandið, þ.e. Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar. Eins olli atkvæðagreiðslan í Noregi og umsókn Norðmanna um aðild að Evrópusambandinu allmiklum breytingum hjá EFTA á meðan ekki lá fyrir hvað um það mál yrði.

Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 og hefur það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir EFTA. Við stofnun Evrópska efnahagssvæðisins var ákveðið að þingmannanefnd EFTA skyldi jafnframt verða EFTA-hlutinn af þingmannanefnd EES og hefur hún í því hlutverki haft samband og samstarf við fulltrúa Evrópuþingsins eða þings Evrópusambandsins. Þá hefur þingmannanefnd EFTA einnig haft samstarf við þing úr ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og þetta samstarf hefur aukist á undanförnum árum.

Það má segja að EFTA hafi nú þríþætt hlutverk og starf þingmannanefndarinnar tekur mið af því. Í fyrsta lagi hefur EFTA það hlutverk að rækja tengsl EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið og að fylgjast með EES-samningnum og þeim atriðum sem varða framkvæmd hans. Í öðru lagi fylgist EFTA með framkvæmd EFTA-samningsins upphaflega. Og í þriðja lagi hefur EFTA staðið í gerð fríverslunarsamninga við lönd utan EES fyrir hönd EFTA-ríkjanna.

Þingmannanefnd EFTA hefur að sjálfsögðu minnkað nokkuð við útgöngu þriggja EFTA-ríkja en EFTA-nefndina gömlu mynda fimm fulltrúar frá hverju EFTA-ríkjanna. EFTA-megin í þingmannanefnd EES eru tólf fulltrúar sem hitta síðan tólf fulltrúa frá Evrópuþinginu og hefur Ísland fjóra fulltrúa af þessum tólf.

Í EES-samningnum er gert ráð fyrir 66 þingmönnum í EES-nefndinni, 33 hvorum megin frá, en það hefur orðið að samkomulagi að mæta einungis með 12 frá hvorum aðila.

Í skýrslunni kemur fram hverjir skipuðu þingmannanefndina fyrir og eftir kosningarnar í apríl. Ef ég fer aðeins yfir störf nefndarinnar vil ég fyrst geta þess að þingmannanefnd EFTA hefur á sl. ári rætt hlutverk EFTA til lengri tíma og þá í ljósi þess að Slóvenía hefur sýnt áhuga á umræðum um tengsl við EFTA og jafnvel látið í það skína að það kæmi til greina að sækja um aðild að samtökunum. Um þetta hefur verið mikið fjallað á vettvangi þingmannanefndarinnar og niðurstaðan varð sú að gera um þetta ákveðna skýrslu þar sem skoðanir nefndarinnar kæmu fram. Á fundi þingmannanefndarinnar í Triesenberg í Liechtenstein 20. og 21. nóv. var samþykkt sameiginleg skýrsla þar sem lýst er þeirri skoðun þingmannanefndarinnar að EFTA skuli í grundvallaratriðum vera opin samtök, án þess að samtökin séu beinlínis að sækjast eftir nýjum aðilum.

Í skýrslunni er rakið hvaða málefni hafa að öðru leyti verið til umfjöllunar í þingmannanefndinni og ég hygg að það sé í sjálfu sér ekki þörf á að ræða þau sérstaklega nema einhver hafi áhuga á að spyrja um eitthvað sem þar kemur fram.