Evrópuráðsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 17:18:52 (3472)

1996-02-29 17:18:52# 120. lþ. 99.8 fundur 338. mál: #A Evrópuráðsþingið 1995# skýrsl, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:18]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um starf íslenskra þingmanna í Evrópuráðinu. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir afar burðuga og fróðlega greinargerð fyrir starfi þeirra.

Það er aðallega tvennt sem mig langar til að drepa á vegna þess að hv. þm. gat þess sérstaklega að hann vildi gjarnan fá viðbrögð við því og ég verð þá að gera það a.m.k. fyrir mína hönd og e.t.v. flokks míns. Hann nefndi t.d. að hugmynd hefði komið fram um það frá einum af vinum okkar við Eystrasaltið að innan Evrópuráðsins yrði smíðaður sérstakur óformlegur samráðsvettvangur fyrir þingmenn smáþjóðanna sem eru innan Evrópuráðsins. Mér finnst þetta vera af hinu góða. Ég tel að það sé mjög jákvæð tillaga. Ég held að það sé óumdeilanlegt að Ísland sem er örþjóð á mælikvarða hinnar stóru veraldar hefur styrk langt umfram það sem fjöldi Íslendinga gefur tilefni til þess að ætla og það er vegna þess að okkur hefur lánast að eiga í samstarfi við góða granna og einnig innan bandalaga eins og Atlantshafsbandalagsins. Þetta hefur magnað upp rödd okkar og gefið okkur aukinn styrk. Ég er þeirrar skoðunar að smáþjóðir eigi að hjálpa og aðstoða hver aðra og ég held að sá vettvangur sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímssonar reifar sé mjög góður. Við eigum að taka undir þessa tillögu félaga okkar Landsbergis.

Hann nefndi það líka að hann teldi að Íslendingar ættu að velta því fyrir sér hvort þeir ættu ekki að gerast aðilar að norður-suður stofnuninni sem hefur aðsetur í Lissabon. Ég held að þetta sé tillaga sem ber að skoða og hefur reyndar verið til svolítillar umfjöllunar innan utanríkismálanefndar en hún var ekki reifuð þar í þaula. Þá komu m.a. fram upplýsingar sem vörðuðu kostnað við þátttökuna sem voru allt annars eðlis en hv. þm. nefnir hér. Ef mitt minni brestur ekki talaði einn af fulltrúum Íslendinga í Evrópuráðinu um að kostnaðurinn gæti hlaupið á bilinu 5--6 millj. en það hefur hins vegar komið fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að þetta er í mesta lagi 500--600 þús. kr. Það tel ég vera fyllilega þess virði að gjalda fyrir slíka þátttöku. Má svo sem rifja það upp að hv. þm. hefur áður komið að norður-suður samstarfinu með góðum árangri án þess að ég ætli að fara að rifja upp frækilega frammistöðu hans á norður-suður ráðstefnunni sem haldin var einmitt í Lissabon árið 1984. Þetta eru viðbrögð mín við þessu og ég vildi gjarnan að það kæmi fram.

Hins vegar er eitt atriði í viðbót sem ég vil reifa. Í löngu og greinargóðu máli sínu drap hv. þm. Tómas Ingi Olrich ekkert á það sem hæst hefur borið í starfi Evrópuráðsins undanfarið og það er ákvörðun Evrópuráðsins að hleypa Rússlandi inn í sínar raðir. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson færði fyrir því að mér þótti skynsamleg rök hvers vegna það getur verið mjög jákvætt fyrir þróun lýðréttinda í álfunni. Hins vegar horfði ég upp á það sem Íslendingur og sem einn af fulltrúum á hinu háa Alþingi hvernig sendinefnd Íslendinga sundraðist eins og sundurleit hænsnahjörð í þeirri atkvæðagreiðslu. Ég fylgist líka með því frá fréttatíma til fréttatíma hvernig jafnvel afstaða einstakra þingmanna sveiflaðist, að vísu ekki hv. þm. Tómasar Inga Olrich sem er þekktur fyrir staðfestu sína. Ég ætla ekki að deila neitt á þessa hv. þm. fyrir þær skoðanir sem birtust í atkvæðagreiðslunni. Hins vegar þykir mér að hér sé um afskaplega mikilvægt mál að ræða. Þetta tengist því sem ég sagði fyrr í dag. Svona mál þyrftu einhvers staðar að vera til umræðu á þeim vettvangi sem Alþingi haslar, annaðhvort í þessum þingsal eða í utanrmn. Ég minnist þess ekki þó að aðdragandinn að atkvæðagreiðslunni hafi verið svo mikill að þetta mál hafi nokkru sinni verið reifað, hvað þá rökrætt til hlítar innan utanrmn. Þetta eru fulltrúar sem við, ég og aðrir þingmenn, höfum kjörið til þess að fara með okkar mál í Evrópuráðinu og þess vegna finnst mér engin goðgá að þessir ágætu félagar okkar þyrftu a.m.k. að sæta því að hlusta á skoðanir mínar og skoðanir annarra þingmanna áður en þeir ganga til svo mikilvægs hlutar sem þessi atkvæðagreiðsla var.

Mér finnst það hvorki álitsauki fyrir Alþingi né Ísland að þriggja manna sendinefnd skuli splittast í þrjá hluta, sér í lagi þar sem allir þrír hlutarnir tilheyrðu stjórnarliðinu. Það þótti mér alveg með ólíkindum og ég tel að það sýni ekki rétt ástandið á stjórnarheimilinu því að þó að þar séu vissulega einhverjir brestir er það auðvitað með ólíkindum að stjórnarliðið skuli skipa sínu fólki þannig til verka að þegar þrír fara til atkvæðagreiðslu og allir úr stjórnarliðinu greiði þeir atkvæði á þrjá mismunandi vegu. Mér þætti vænt um það að hv. þm. Tómas Ingi Olrich reifaði þetta aðeins. Ég geri ekki þá kröfu til hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar vegna þess að þó hann hafi flutt framsögu fyrir nefndinni var hann ekki staddur þarna. Mér skilst að hann hafi verið að pússa saman hjónaleysi austur í Indlandi sem hefur vafalaust ekki verið síður mikilvægt fyrir heimsfriðinn, a.m.k. í þeim hluta veraldar.