Evrópuráðsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 17:26:26 (3475)

1996-02-29 17:26:26# 120. lþ. 99.8 fundur 338. mál: #A Evrópuráðsþingið 1995# skýrsl, GHH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:26]

Geir H. Haarde (andsvar):

Herra forseti. Þó að þetta mál varði ekki utanrmn. nema óbeint vil ég gjarnan koma upp og láta í ljós skoðun mína á þeirri atkvæðagreiðslu sem hv. þm. gerði að umtalsefni.

Það má ekki gleyma því að menn koma fram á vettvangi Evrópuráðsþingsins, eins og reyndar miklu víðar í alþjóðlegu þingmannasamstarfi, sem einstaklingar frá ákveðnum löndum. Jafnvel þótt við hefðum í utanrmn. eða í þingflokkum eða á stjórnarheimilinu lagt fram einhverja ákveðna línu eða gefið fyrirmæli um einhverja ákveðna afstöðu hefðu þingmenn að sjálfsögðu ekki verið bundnir af því. Það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að á þessum vettvangi hafa menn frjálsar hendur og það er auðvitað partur af því skoðanalega lýðræði sem er þarna fyrir hendi.

Hitt er annað mál að menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvernig sú ásýnd er sem kemur fram í því að þrír þingmenn hafa þrjár mismunandi afstöður. En ég sé ekkert athugavert við það að menn greiði mismunandi atkvæði.

Það má kannski gagnrýna að þetta mál hafi ekki verið rætt nægilega vel í utanrmn. áður en þetta kom til afgreiðslu á þinginu í Strassborg. Menn geta flutt þá gagnrýni hér en það er ekki hægt að gagnrýna þingmennina sjálfa fyrir að taka afstöðu út frá eigin sannfæringu, sínu eigin mati á aðstæðum sem eru flóknar og við höfum lauslega drepið á í þessum umræðum. Út af fyrir sig er ekkert nýtt að menn hafi mismunandi mat á því og það var ekki bara í Íslandsdeildinni sem slíkur ágreiningur kom upp. Ég veit að í mörgum öðrum sendinefndum voru mismunandi skoðanir og atkvæði greidd með mismunandi hætti en þar voru reyndar fleiri þingmenn. Margir þingmenn kusu að taka sömu afstöðu og ríkisstjórnir þeirra hafa en ekki líkt því allir og það liggur í eðli málsins á þessum vettvangi.