Evrópuráðsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 17:28:37 (3476)

1996-02-29 17:28:37# 120. lþ. 99.8 fundur 338. mál: #A Evrópuráðsþingið 1995# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:28]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Geir H. Haarde að það er ekki hægt að liggja hv. fulltrúum okkar á þingi Evrópuráðsins á hálsi fyrir þá afstöðu sem þeir tóku. Hins vegar er hægt að liggja okkur og þinginu og utanrmn. og jafnvel hæstv. forsrh. á hálsi fyrir að hafa ekki efnt til umræðu um þetta mikilvæga atriði til þess að reyna að samræma afstöðu íslensku fulltrúanna þannig að Ísland birtist ekki eins og sundurlaus hænsnahjörð á þingi Evrópuráðsins. Hv. þm. sagði að það væri ekkert sem benti til þess að slíkar umræður hefðu e.t.v. getað sett einhvern skikk á þetta mál. Ég bendi hv. þm. Geir H. Haarde á það að ég sagði áðan í ræðu minni að ég hefði eins og aðrir Íslendingar orðið áheyrandi að því hvernig a.m.k. einn fulltrúi Íslands á þessu þingi skipti um skoðun frá einum fréttatíma í útvarpinu til annars, væntanlega vegna þess að einhver hefur talað við hann, væntanlega vegna þess að hann hefur fengið nýjar upplýsingar. Ég held að það hefði verið færsælt fyrir okkur að ræða þetta í okkar hóp fyrir utan það hvað ég tel að það hefði verið miklu farsælla ef sá skeleggi hershöfðingi sem hæstv. forsrh. er hefði t.d. beitt einhverju af valdi sínu eða fortöluhæfileikum til þess að reyna a.m.k. að samræma skoðanir eigin fólks. En mér finnst það vera svolítið napurt að þrír Íslendingar greiði atkvæði á þrjá mismunandi vegu og enn merkilegra í ljósi þess að allir koma þeir úr stjórnarliðinu. Þetta hefði auðvitað verið allt öðruvísi ef þetta hefðu verið þrír stjórnarandstæðingar við þurfum ekki að ganga gruflandi að því.

Þetta leit ankannalega út. Þetta var aldrei rætt hérna, ekki heldur í utanrmn. Ég er alls ekki að bera fram neina gagnrýni á formann utamrn. en ég tengi þetta því sem ég sagði fyrr í dag að mér finnst að hér í þessum sölum sé nauðsynlegt að taka svona grundvallarmál, eins og mér finnst þetta a.m.k. jaðra við að vera, til rækilegri umfjöllunar og þá áður en til ákvörðunarinnar sjálfrar er gengið.