Evrópuráðsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 17:58:57 (3481)

1996-02-29 17:58:57# 120. lþ. 99.8 fundur 338. mál: #A Evrópuráðsþingið 1995# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:58]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir auðvitað miður ef hv. þm. Tómasi Inga Olrich er andvígur því að ég skuli nota orðið sundurlaus hænsnahjörð um sendinefnd Íslands á Evrópuráðinu þegar þennan atburð bar að. En þannig virkaði þessi hópur vaskra þriggja stjórnarliða ekki bara gagnvart mér heldur gagnvart íslensku þjóðinni. Það má vel vera að fjöldi sendinefnda hafi klofnað en ætli þetta sé ekki eina sendinefndin sem samanstóð af fleirum en tveimur sem klofnaði í þrjá vegu. Ég veit það ekki, ég þekki það ekki. Það má vel vera að svo hafi ekki verið. Hins vegar finnst mér dálítið merkilegt í ljósi mikilvægis atkvæðagreiðslunnar að það er upplýst hér að nefndin hélt engan formlegan fund um málið. Ég hefði talið að það væri ekki goðgá þó að nefndin héldi fund um mikilvægasta atburðinn sem hefur sennilega rekið á fjörur hennar síðustu fimm, sex árin. Ég hefði talið að það bæri vott um góð vinnubrögð og góða stjórnun að gera það en það er greinilegt að menn hafa sest niður á einhverju kaffihúsi og komist að því að það væri ekki flötur á því að ná samstöðu. Hv. þm. má alls ekki skilja það svo að ég telji að þegar búið væri að skoða þetta mál til hlítar væri einhver nauðsyn á því að menn tækju samræmda afstöðu en það hefði verið eðlilegt að menn reyndu að freista þess með því að kanna málið. Það var ekki gert eða svo virðist mér ekki vera.

[18:00]

Herra forseti. Ég óskaði eftir því að hv. þm., Tómas Ingi Olrich gerði mér og því fjölmenna þingliði sem hér er mætt til að hlýða á umræður svolitla grein fyrir því hvernig þessar afstöður bar að. Það hefur hann gert með miklum sóma. Ég skil að hann og væntanlega aðrir líka hafa farið mjög ítarlega í málið. Ég ætla ekki að ræða það frekar. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ræðum mínum um þetta efni lokið að sinni. En ég á eftir eina langa ræðu.