Evrópuráðsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 18:01:22 (3482)

1996-02-29 18:01:22# 120. lþ. 99.8 fundur 338. mál: #A Evrópuráðsþingið 1995# skýrsl, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[18:01]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil upplýsa hv. þm. Össur Skarphéðinsson um það að óformlegir fundir um þetta mál voru ekki haldnir á kaffihúsum í Strassborg. Þeir voru, eins og margir óformlegir fundir þessarar nefndar, haldnir í húsakynnum Evrópuráðsins sem eru mjög virðuleg. Þar er gott andrúmsloft til að halda óformlega sem formlega fundi. Ég vil hins vegar taka skýrt fram að að sjálfsögðu skiptir mestu máli nú, þegar Rússar eru orðnir aðilar að Evrópuráðinu, að þeim sé sýnt aðhald. Ég vil hins vegar minna hv. þm. Össur Skarphéðinsson á það að með þeirri ákvörðun sem tekin var um að mæla með aðild Rússa að Evrópusambandinu var jafnframt verið að gefa lýðræðissinnum, ég segi ,,lýðræðissinnum`` innan gæsalappa, eins og Vladimir Zhirinovskíj, sæti á Evrópuráðsþinginu, atkvæðisrétt og áhrifamátt í störfum þingsins.