Evrópuráðsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 18:02:37 (3483)

1996-02-29 18:02:37# 120. lþ. 99.8 fundur 338. mál: #A Evrópuráðsþingið 1995# skýrsl, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[18:02]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar í upphafi máls míns að vekja athygli á því að umræður hafa staðið frá því klukkan hálfellefu í morgun um okkar erlendu samskipti. Mér finnst það sæta nokkrum tíðindum og ég vil fagna því mjög að menn hafa tekið sér tíma í dag til að fara í gegnum okkar erlenda samstarf og vona svo sannarlega að það haldi áfram. Eins og ég upplifði þetta á síðasta kjörtímabili, runnu þessar skýrslur hér í gegn meira og minna umræðulaust. Að sjálfsögðu hafa menn í gegnum árin verið að taka afstöðu í alls konar stórmálum, stórpólitískum málum jafnt í Evrópuráðinu sem annars staðar, en einhvern veginn hefur skort vettvang til þess að ræða þau mál. Ég átti sæti í Evrópuráðinu á síðasta kjörtímabili og þar af leiðandi u.þ.b. hálft síðasta ár og ber því nokkra ábyrgð á því starfi sem hér er verið að gera grein fyrir.

Mig langar að rifja upp að þegar ég tók sæti í Evrópuráðinu 1991, reyndar sem varamaður, voru aðildarríkin 27 talsins. Nú eru þau 39. Þar hefur því orðið gífurleg fjölgun. Á fyrsta fundinum sem ég sótti ásamt þeirri nýju sendinefnd sem þá var að hefja starf --- sá fundur var á sumarþingi í Finnlandi --- gerðust mikil tíðindi því inn á þann fund bárust þær fregnir að allt væri komið í bál og brand í Júgóslavíu. Það var mjög merkilegt að upplifa að fulltrúar í sendinefnd Júgóslavíu sem þá var, en þeir voru Serbar, Króatar og menn af ýmsu þjóðerni, vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Síðan hefur umræða um málefni þess svæðis einkennt mjög öll störf Evrópuráðsins.

Varðandi það efni sem hér hefur verið mikið rætt, Rússland, vil ég geta þess að það er ekki eins og aðild Rússlands að Evrópuráðinu hafi hafi komið upp í janúar sl. Það mál er búið að vera til umfjöllunar svo árum skiptir. Hver sendinefndin á fætur annarri hefur farið þangað til að kanna málin og til annarra þeirra ríkja sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum. Hvað eftir annað hefur því verið frestað að taka afstöðu til aðildar Rússlands vegna ástandsins þar. Ég verð að segja að mér finnst minn ágæti, góði og gamli vinur, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, ekki alveg skilja eðli málsins. Hefðu þeir þingmenn sem eru varamenn í Evrópuráðinu, t.d. hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, Ólafur Örn Haraldsson og Hjálmar Jónsson, verið fulltrúar á þessu þingi, hefði niðurstaðan kannski orðið allt önnur. Menn eru þarna sem fulltrúar sinna flokka og sinna sjónarmiða. Það hefur margsinnis gerst í áranna rás að íslenskir þingmenn hafa tekið mismunandi afstöðu til mála eftir sinni sannfæringu. Ég hef margsinnis lent í því að greiða atkvæði og oft setið við hliðina á Birni Bjarnasyni, hæstv. menntmrh., og við höfum greitt atkvæði hvort á sinn hátt. Menn eru þarna fyrst og fremst sem fulltrúar sinna flokka og eiga að fylgja eigin sannfæringu. Þess vegna greiða menn atkvæði í samræmi við það.

Ég verð að segja að eftir að hafa fylgst með hegðun Rússa í Evrópuráðinu eftir að þeir fengu þar gestaaðild hygg ég að ég hefði greitt atkvæði á sama hátt og hv. þm. Tómas Ingi Olrich. Það hefur komið í ljós að áður en ríki gerðust aðilar að Evrópuráðinu, en þá voru þau undir miklu eftirliti, lögðu þau sig fram við að standast þau skilyrði sem Evrópuráðið setur. Þá urðu ýmsar framfarir en eftir að Austur-Evrópuríkin komu inn í Evrópuráðið hefur reynst miklu erfiðara að fylgjast með þeim. Þá kom heldur betur í ljós að það var ekki allt í lagi. Ég minnist alveg sérstaklega dæmis frá Búlgaríu. Þar ákærðu yfirvöld dómsmála þingmann fyrir ummæli sem hann hafði látið falla um ástandið í landi sínu á þingi Evrópuráðsins. Það átti að lögsækja þingmanninn. Þá var nú ekki mikið til sem hét þinghelgi eða virðing fyrir málfrelsi þessa manns. Hann leitaði réttar síns og fulltingis þingmanna Evrópuráðsins sem auðvitað stóðu upp allir sem einn og spurðu: Eruð þið að verða vitlausir? Hvað á þetta að þýða? Með öflugum stuðningi við hann tókst að koma í veg fyrir þetta. Þeir áttuðu sig á því að þetta var ekki í samræmi við lög og reglur eða lýðræðislegar hefðir og rétt þingmanna.

Annað sem menn hafa verið að velta fyrir sér er það hvernig fer þegar Austur-Evrópuríkin, hvort sem það er Búlgaría, Rúmenía eða Rússland, verða komin með fulltrúa sína inn í Mannréttindadómstól Evrópu með sínar ólíku hefðir í lagasetningu og afstöðu til dómsvaldsins þar sem tengsl framkvæmdarvalds og dómsvalds eru þau að framkvæmdarvaldið hefur áratugum saman sagt dómsvaldinu fyrir verkum. Hvernig virkar það þegar þessir fulltrúar koma inn í Mannréttindadómstólinn? Eins og ég nefndi voru ríki Evrópuráðsins 27 árið 1991 en þau eru núna 39. Þessi ríki eru orðin þarna mjög stór og sterkur aðili. Hvaða áhrif munu þau hafa? Eru þau í stakk búin til að standa vörð um lýðræði og mannréttindi? Að mínum dómi hefði ástandið og afskipti Rússa af málefnum Tsjetsjeníu átt að vera nægilegt tilefni til þess að þeirra aðild yrði frestað enn einu sinni. Að mínum dómi stenst það ekki kröfur Evrópusambandsins að aðildarríki standi í styrjöld. Þarna kemur þetta mat sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich var að lýsa. Það er auðvitað ákveðinn pólitískur þrýstingur þarna á bak við og ákveðið pólitískt mat. Menn eru að vega og meta ástandið í Rússlandi og ég hef reyndar alltaf verið afar undrandi og gagnrýnin gagnvart þeim stuðningi sem núverandi stjórnvöld fá. Ég held að að mörgu leyti hefði verið betra að beita þá meiri þrýstingi og gagnrýni. En þetta er búið og gert.

Ég ætlaði líka að nefna annað ríki sem hefur verið undir smásjá Evrópuráðsins, en það er Tyrkland. Á þeim árum sem ég sat þarna komu aftur og aftur upp ýmis málefni sem snertu Tyrkland, átök þeirra innan lands og baráttu þeirra gegn skæruliðahreyfingu Kúrda, handtaka á þingmönnum og dómar yfir þingmönnum og fleira og fleira sem eru alveg greinilega brot á samþykktum Evrópuráðsins. En menn veigra sér við því að ganga skrefið til fulls og vísa Tyrkjum hreinlega úr Evrópuráðinu. Þeir eru a.m.k. greinilega alveg á mörkunum.

Mig langar líka að minnast á það hversu fróðlegt það var að fylgjast með málflutningi þeirra Rússa sem komu þarna inn. Þar á ég ekki við Zhirinovskíj sem tókst alltaf að vekja á sér mikla athygli og vera með málflutning sem kallaði á athygli fjölmiðla og var auðvitað einhvers staðar aftan úr öldum. Þegar ég fór að lesa mér til um þessa fulltrúa vakti athygli mína að þarna var t.d. herforingi. Reyndar gekk hann um í borgaralegum klæðum og ég veit ekki hvort hann situr þarna enn, en þá var hann sem sagt herforingi. Staða hersins í Rússlandi er náttúrlega með eindæmum. Að herinn bjóði fram til þings og það sé lögmál að varnarmálaráðherra landsins sé hershöfðingi og komi úr hernum er arfur sovétveldisins og eitt af því sem sýnir manni hvað lýðræðið á langt í land.

Hæstv. forseti. Hvað varðar þá umræðu sem hér varð fyrr í dag um skörun á milli alþjóðadeilda sem við þingmenn tökum þátt í, ber þessi skýrsla þess glöggan vott að það er verið að ræða sömu málin á mörgum stöðum. Það þarf ekki endilega að vera slæmt en það ber þess vott að menn dreifi kröftunum um of. Það kemur hér fram t.d. að á fyrsta hluta þings Evrópuráðsins var rætt um Tsjetsjeníu og aðildarumsókn Rússa strax í upphafi ársins og í framhaldi af fyrri umræðu. Á öðru þinginu var rætt um hernaðaraðgerðir Tyrkja í Norður-Írak o.s.frv. Þetta eru mörg þeirra mála sem hv. þm. Pétur H. Blöndal gat um í skýrslu sinni um ÖSE og vekur spurningar um þennan tvíverknað.

[18:15]

Ég sé að á þriðja hluta þings Evrópuráðsins hefur verið samþykkt aðild Albaníu að Evrópuráðinu. Það rifjar upp fyrir mér að á sínum tíma átti ég þess kost að heimsækja Albaníu með nefnd sem fór þangað til að gera úttekt á ástandinu þar. Ég skrifaði reyndar á sínum tíma blaðagrein um þá heimsókn því það var ákaflega merkileg reynsla að koma þangað. Þá kom í ljós hvað þeir áttu gífurlega langt í land. Mér þætti gaman að fræðast um hvort þeim hefur á þessum u.þ.b. tveimur árum sem líða þarna á milli tekist að kippa því í liðinn sem þeir þurftu að taka á. Þessa daga sem við vorum þarna sat foringi stjórnarandstöðunnar í fangelsi og hafði verið krúnurakaður og settur í fangabúning. Svoleiðis gerðu menn á tímum Envers Hoxha og menn héldu því bara áfram. Þingmenn Evrópuráðsins voru að gera stjórnvöldum þarna grein fyrir því að þetta væri ekki framkoma sem gerði líklegt að þeir kæmust í Evrópuráðið. Þeir hrukku óskaplega við út af þessu máli. Ég man ekki hvað þessi maður heitir og veit ekkert hvort hann er utan fangelsis eða innan. Hann hafði verið síðasti forsætisráðherra kommúnistaflokksins og var sakaður um að 9 millj. dollara hefðu horfið. Það var aðstoð frá Ítalíu sem hvarf eins og dögg fyrir sólu og enginn vissi hvað hafði orðið af. Hann var auðvitað þingmaður en þeir gerðu sér lítið fyrir handtóku hann, krúnurökuðu og settu í röndóttan fangabúning. Lögfræðingur hans hafði ekki einu sinni fengið að hitta hann eða kynna sér málið o.s.frv.

Tíma mínum er alveg að ljúka. En það væri fróðlegt að átta sig á því hvort þeim hefur tekist að bæta svo úr hjá sér að þeir uppfylli skilyrðin. En mér fannst á þeim tíma að þingmennirnir sem voru að ræða við Albana væru svolítið slakir í kröfunum. Það held ég einmitt að sé hættulegt. Ég er á þeirri skoðun að það sé betra að gera meiri kröfur fyrir fram og sjá til að menn standist raunverulega þau skilyrði sem menn gera um lýðræði og löggjöf en að þurfa að standa frammi fyrir því eftir á að reyna að þrýsta á um úrbætur.