Evrópuráðsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 18:33:37 (3486)

1996-02-29 18:33:37# 120. lþ. 99.8 fundur 338. mál: #A Evrópuráðsþingið 1995# skýrsl, ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[18:33]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ljúft að staðfesta að sá skilningur er réttur að þær mismunandi áherslur sem komu fram innan íslensku sendinefndarinnar á þingi Evrópuráðsins sneru fyrst og fremst að tímasetningu. Það ber að leggja áherslu á það og ef orð mín hafa falið það í sér að það mætti skilja þau á þann veg að innan sendinefndarinnar hafi verið grundvallarandstaða við aðild Rússa að Evrópuráðinu er nauðsynlegt að leiðrétta það.

Það er líka rétt að halda því til haga eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich benti á og fróðlegt fyrir aðra í salnum að átta sig á því að það eru til hópar þingmanna á þingi Evrópuráðsins sem telja að Rússland sé svo stórt, svo fyrirferðarmikið að aðild þess að Evrópuráðinu hljóti að breyta nánast í grundvallaratriðum eðli stofnana Evrópuráðsins. Sumir halda því jafnvel fram, a.m.k. í einkasamræðum, ég veit ekki hvort það hefur komið fram í opinberum ræðum, að Evrópuráðið muni aldrei leggja í það að vísa Rússlandi úr þingsalnum með formlegri atkvæðagreiðslu eins og Evrópuráðið hefur þó rétt til að gera líkt og Tyrkir urðu að ganga á dyr þegar þing Evrópuráðsins samþykkti að vísa þeim brott vegna herforingjastjórnarinnar í Tyrklandi. Vissulega væri það mikil ákvörðun að vísa rússnesku sendinefndinni formlega á brott og Rússlandi þar með úr stofnunum ráðsins. Það getur kannski verið rétt hjá þessum ágætu mönnum að ef á þyrfti að halda mundi það vefjast fyrir ýmsum m.a. af pólitískum ástæðum. Ég hef hins vegar þá trú að Evrópuráðið muni áfram sýna þann innri styrk sem það hefur sýnt til þessa.