VES-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 18:57:06 (3490)

1996-02-29 18:57:06# 120. lþ. 99.9 fundur 339. mál: #A VES-þingið 1995# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[18:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að öll Norðurlöndin fimm hafa ekki kosið að taka sér stöðu sem fullgildir aðilar að Vestur-Evrópusambandinu. Þrjú þeirra eiga þó kost á því. Það er erfitt að svara spurningunni vegna þess að ég hef ekki nægilega þekkingu á málinu til að geta það. Ég vil þó að því er varðar Danmörku greina frá því að Danir mæta þarna einungis til að fylgjast með. En ég minnist þess ekki að þeir hafi tekið til máls eða látið nokkrar skoðanir í ljós, meðan t.d. Norðmenn eru nokkuð virkir. Þingmenn þeirra á samkundunni hafa mælt fyrir fullri aðild Noregs að Vestur-Evrópusambandinu og ég hygg að því verði fylgt eftir af hálfu ríkisstjórnar Noregs á næstu árum.

Það var líka merkilegt þegar forsætisráðherra Dana kom hingað til fundar við utanrmn. í opinberri heimsókn sinni, að um það bil helmingurinn af því sem hann ræddi við okkur, og hann ræddi það reyndar líka talsvert í fjölmiðlum og í samtölum við systurflokk sinn, Alþfl., laut að Vestur-Evrópusambandinu. Satt að segja fannst mér dálítið merkilegt hversu mikinn þunga hann lagði á það mál og bersýnilegt að Danir hafa áhuga á því að breyta stöðu sinni á einhvern hátt. Ég held að hann hafi jafnvel sagt það í fjölmiðlum.

Hins vegar hafa Íslendingar á því ári sem þeir hafa verið þarna inni verið langvirkastir allra Norðurlandanna. Að hluta til, hv. þm., kann það að helgast af því, sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að VES-ið var örreytiskot í túnjaðri höfuðbólsins áratugum saman. Það er fyrst núna á allra síðustu árum, þ.e. eftir Maastricht 1991, sem það er líklegt að Vestur-Evrópusambandið fái aukið vægi. Nú þegar á síðustu árum hefur Vestur-Evrópusambandið tekið að sér gæsluhlutverk bæði á Dóná, á Adríahafi og í Mostar. En ég hef ekki tíma til að fara frekar út í það.