Alþjóðaþingmannasambandið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 19:15:24 (3494)

1996-02-29 19:15:24# 120. lþ. 99.10 fundur 340. mál: #A Alþjóðaþingmannasambandið 1995# skýrsl, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[19:15]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Virðulegi forseti. Vissulega er ástæða til að taka undir orð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar varðandi hv. þm. Geir Haarde. Móðir Gríms Thomsens hefði komist þannig að orði að hann væri sómi síns föðurlands eins og hún sagði oft um þá menn sem henni fannst standa sig vel. Ég kannast við þetta sama úr því alþjóðasamstarfi sem ég hef verið í að hv. þm. Geir Haarde er þekktur meðal þingmanna og að góðu einu.

Ástæðan fyrir því að ég kem hingað í ræðustól er sú að það rifjaðist upp fyrir mér að ég hef notið mjög góðs af Alþjóðaþingmannasambandinu og við hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir. Ég vil koma því að hvað Alþjóðaþingmannasambandið kemur víða við því að á kvennaráðstefnunni í Kína kom Alþjóðaþingmannasambandið nokkuð við sögu. Það stóð þar fyrir mjög stórum fundi sem var haldinn í höll alþýðunnar í Peking, heils dags fundi þar sem voru saman komnir að ég hygg nokkur hundruð þingmanna því að það voru gríðarlega margir þingmenn á kvennaráðstefnunni. Mér er sérstaklega minnisstæð fylking indverskra þingkvenna sem voru þarna tugum saman og bar auðvitað mikið á vegna þess hvað þær voru skrautlega klæddar og glæsilegar konur. Þarna var farið í gegnum stöðu mála í þjóðþingum heimsins og kynnt skýrsla sem Alþjóðaþingmannasambandið lét vinna sérstaklega í tilefni af kvennaráðstefnunni um stöðuna á þjóðþingum. Ég veit ekki hvort þingmenn hafa almennt fengið skýrsluna. Ég á hana í fórum mínum og ég sá að ritari deildarinnar var með hana í sínum höndum í dag en það væri vissulega ástæða til að kynna hana betur því að þar er að finna gríðarlega góð og mikil gögn varðandi þátttöku kvenna og hlut þeirra á öllum þjóðþingum heimsins. Skýrslan sýnir að þegar hún var gerð var Ísland í 8. sæti í heiminum hvað varðar hlut kvenna á þjóðþingum.

Alþjóðaþingmannasambandið gerði meira. Það stóð líka fyrir almennum umræðufundi um sáttmála Sameinuðu þjóðanna og hvernig væri hægt að koma þeim inn á þjóðþingin og beita þjóðþingunum til þess að koma þeim í framkvæmd. Framlag Alþjóðaþingmannasambandsins þarna var verulegt og það var mjög gaman að fá tækifæri til þess að hitta þarna þingmenn frá öllum heimsins hornum. Konur voru í miklum meiri hluta og eins og hér hefur komið fram er oft eins og maður fái einna mest út úr því í öllu þessu samstarfi að fá tækifæri til að tala við fólk úr ýmsum áttum.

Ég minnist þess einnig að forseti Alþjóðaþingmannasambandsins sem er frá Egyptalandi gerði nokkra grein fyrir stöðu þingmannasambandsins og ég minnist þess að hann lýsti þar sérstökum áhyggjum sínum af því hvað Bandaríkjamenn væru að draga sig út úr þessu starfi. Hann hvatti þá sem þarna voru til þess að þrýsta á Bandaríkin og vekja athygli á því hvað þetta starf væri um margt merkilegt en það mundi hafa afar alvarleg áhrif ef þeir drægju sig út úr starfinu og þá ekki síst vegna þeirra framlags.

Mig langaði bara að koma þessu á framfæri og vekja athygli á þessari skýrslu sem ætti að vera í höndum allra þingmanna því að oft er maður að leita upplýsinga um stöðu kvenna á þjóðþingum víða um heim og þessi skýrsla liggur fyrir og var mjög gott framlag til umræðunnar í Peking.