Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 13:49:53 (3497)

1996-03-05 13:49:53# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[13:49]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. samgrh. langar mig til að fá skýrari svör um áform sem eru uppi á vegum Reykjavíkurborgar og lúta að því hvernig staðsetningu væntanlegs flugvallar hér til að sinna innanlandsfluginu verður háttað. Við höfum heyrt í fjölmiðlum ýmsar hugmyndir þar um. Ég tel að það sé alveg ljóst að þetta mál verður að liggja fyrir mjög fljótlega og samgn. þingsins sem fær flugmálaáætlunina nú til meðferðar hlýtur að gera mjög stífar kröfur um að ákvörðun liggi fyrir. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í þetta mál frekar. Það er alveg ljóst að við erum að tala um mjög mikið fjármagn sem þarf til að byggja upp Reykjavíkurflugvöll. Það er óhjákvæmilegt. Ég held að sem betur fer sé nokkuð breið samstaða á Alþingi um slíkt mál. En það verður að liggja ljóst fyrir á þeim tíma sem við fjöllum um flugmálaáætlun, hver áformin eru um staðsetningu flugvallarins í Reykjavík.