Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 13:52:56 (3500)

1996-03-05 13:52:56# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[13:52]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við þessa fyrri umræðu um flugmálaáætlun næstu fjögurra ára að þessu ári meðtöldu vil ég koma nokkrum atriðum á framfæri. Í fyrsta lagi lýsi ég yfir megnri óánægju af minni hálfu og okkar alþýðubandalagsmanna að því er varðar meðferð á fjármagni til flugmála og merktum tekjustofnum sem gott samkomulag var um á sínum tíma að teknir yrðu til framkvæmda í flugmálum í landinu. Það hefur ítrekað verið brugðið á það ráð af fyrrv. ríkisstjórn og nú af þessari að taka hluta af þessu fjármagni til beinna rekstrarþátta flugvallanna. Hugmyndin er að halda þar áfram í stórum stíl eins og fram kemur í greinargerð með þessari áætlun. Þar er gert ráð fyrir í flugmálaáætlun að fé til framkvæmda í flugmálum og tekjum af flugvallargjaldi skuli einnig varið til rekstrar flugvalla, ekki minna en 190 millj. kr. á þessu ári og 100 millj. kr. á næstu árum, ár hvert. Þetta er meðferð á mörkuðum tekjustofni sem er að mínu mati mjög óeðlileg. Það mætti hafa um það harðari orð vissulega og þyrfti ég ekki að leita í smiðju langt frá hæstv. ráðherra flokkslega séð til að velja þessari ráðabreytni einkunnir. Ég minni þar á orðræður hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar sem var ráðherra þegar þessi markaði tekjustofn var innleiddur á sínum tíma. Hann beitti sér hart gegn breytingum, einnig þegar hann var í stuðningsliði ríkisstjórnar eftir að farið var að taka umtalsverða fjármuni til annars en gert hafði verið ráð fyrir þegar tekjustofninn var ákveðinn.

Þetta bætist ofan á það að almennt var skorið stórkostlega niður fjármagn til flugmála með ákvörunum sem tengdust fjárlagafrv. þannig að miðað við það sem þá lá fyrir var niðurskurðurinn nærri því helmingur, hátt í 50% miðað við fyrra ár ef ég man rétt. Þessar tölur hef ég ekki fyrir framan mig. Það þarf ekki mörg orð til að lýsa því hvaða áhrif slíkt hefur á ráðgerðar framkvæmdir samkvæmt þeirri áætlun sem hefur verið í gildi. Þetta bitnar hart á stórum framkvæmdaþáttum, bæði endurbyggingu og nýbyggingu í sambandi við flugmálin og kemur niður á aðalflugvöllum heilla landshluta eins og Egilsstaðaflugvelli. Þeim framkvæmdum sem þar hafa verið í gangi og seinkar af þessum sökum. Þetta varðar einnig Reykjavíkurflugvöll og flugvöllinn á Akureyri. En inn í það mál koma yfirlýsingar hæstv. ráðherra varðand hið fundna fé sem hann aðeins vék að í sínu máli. Hann kom því á framfæri ekki alls fyrir löngu hvert hugur hans stæði í sambandi við ráðstöfun á þessu fundna fé og er það mál út af fyrir sig sem hefur þegar verið gagnrýnt á Alþingi. Ég ítreka gagnrýni mína á þeim vinnubrögðum sem þar voru uppi höfð af hæstv. ráðherra, þ.e. að boða það utan þings að það fjármagn sem þarna kynni að bætast við og verða til ráðstöfunar skyldi eyrnamerkt í ákveðnu skyni án þess að nokkrum hér, mér vitanlega, á þingi hefði verið kynnt þau áform. Slíkt hlýtur að sjálfsögðu að verða rætt ásamt öðrum atriðum sem snerta þessa áætlun og ... (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra er eitthvað farinn að ókyrrast undir máli mínu og helst ekki við í sæti sínu. Það er kannski til marks um það að eitthvað hefur á honum hrinið sú gagnrýni sem fram hefur komið úr ýmsum áttum vegna ráðslags hans um hvað hann hefði í huga í sambandi við hið fundna fé sem hann nú kallar svo eins og fram hefur komið opinberlega.

Einnig á hinum smærri flugvöllum í landinu sem gegna þó mjög mikilvægu hlutverki fyrir utan aðalflugvellina sem ég nefndi og fleiri ónefnda, er æskilegum og nauðsynlegum framkvæmdum frestað vegna þess að fjármagnið er annaðhvort ekki til ráðstöfunar eða ráðstafað til annarra þátta samkvæmt ákvörðun stjórnarmeirihlutans undir forustu hæstv. samgrh. Hér er einnig um að ræða flugvelli á Austurlandi sem ég ætla ekki að fara að gera að sérstöku umtalsefni, þar sem óskað hefur verið eftir verulegum aðgerðum t.d. á Hornafjarðarflugvelli og víðar. Það á eftir að sjá hvaða fjármagn fæst til þeirra nauðsynlegu aðgerða sem þar hefur verið óskað eftir.

[14:00]

Hér kom Reykjavíkurflugvöllur til umræðu og þörfin á aðgerðum í sambandi við hann. Ég tek undir það sem fram hefur komið að það er alveg nauðsynlegt að óvissu verði eytt fyrr en seina um stöðu Reykjavíkurflugvallar og endurbætur þar. Ég hef ekki satt að segja tekið mjög alvarlega hugmyndir um það að þessi flugvöllur yrði fluttur í náinni og fyrirsjáanlegari framtíð, að farið yrði að flytja innanlandsflugið eitthvert annað. Það skiptir alla landsmenn og Reykjavíkurborg auðvitað líka miklu máli að innanlandsflugið haldist í sem bestu horfi og tengist höfuðstaðnum. Auðvitað eru skipulagslegir annmarkar á því að rækja þetta flug frá Reykjavík í nágrenni þéttbýlis eins og alls staðar annars staðar þar sem flugvellir eru nærri þéttbýli en ég hef litið svo til að þeir erfiðleikar gætu farið minnkandi af ýmsum ástæðum vegna breytts flugvélakosts, vegna tæknibreytinga, vegna þess að unnt er að draga úr hljóðmengun af flugi o.s.frv. Ég fullyrði að það mundi hafa afar afdrifarík áhrif á innanlandsflugið ef farið væri að flytja það eitthvað verulega frá höfuðstaðnum, ég tala ekki um til Keflavíkur. Það væri hið sama í rauninni og að kippa fótum undan flugi víðast hvar innan lands, einfaldlega vegna þess tíma sem bættist þá við til þess að nýta sér flugið. Þetta held ég að sé öllum sem nota innanlandsflug eitthvað að ráði fullkomlega ljóst. Ég á ekki von á öðru en að núverandi flugvöllur verði endurgerður eins og brýn nauðsyn er að verði og allri óvissu þar að lútandi verði eytt hið fyrsta.