Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 14:21:59 (3510)

1996-03-05 14:21:59# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[14:21]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í framhaldi af umræðum sem hér hafa orðið og m.a. vegna andsvars hv. þm. Stefáns Guðmundssonar um Reykjavíkurflugvöll. Það mál hefur áður komið til umræðu að frumkvæði hv. 18. þm. Reykv. Ástæðan er auðvitað sú að við Reykvíkingar höfum áhyggjur af þessu máli. Við höfum áhyggjur af öryggismálum í kringum Reykjavíkurflugvöll og við förum fram á að íbúum Reykjavíkur sé í þessu efni sýndur skilningur og málflutningi þeirra sanngirni.

Ég hef orðið var við það að þær hugmyndir sem uppi hafa verið í Reykjavík í þessum efnum hafa stundum mætt ákveðinni gagnrýni af hálfu manna utan Reykjavíkurkjördæmis og reyndar get ég skilið það. En ég held að menn þurfi að gera sér grein fyrir því að það eru tiltekin rök fyrir þessum sjónarmiðum sem komið hafa upp í Reykjavík. Þau rök heyrum við í þingsalnum á hverjum einasta degi þar sem er fluglínan yfir hjarta Reykjavíkur. Þess vegna hefur það auðvitað verið rætt af hálfu borgaryfirvalda og af hálfu samgrn. líka í skýrslu sem skilað var á árinu 1991 eða þar um kring. Þar var beinlínis um það fjallað hvort hugsanlegt væri að draga úr þessari flugumferð yfir Reykjavík. Þar voru menn aðallega með tvennt í huga. Í fyrsta lagi verulega mikla umferð erlendra smáflugvéla sem sækjast eftir því að lenda í Reykjavík og fá þjónustu þar. Hér er um að ræða geysimikla umferð, mun meiri umferð en menn kannski almennt gera sér grein fyrir.

Í öðru lagi voru menn að tala um að það væri kannski hugsanlegt að halda þannig á málum að æfinga- og kennsluflugið yrði ekki eins mikið eingöngu bundið við Reykjavík og verið hefur. Menn sögðu sem svo í þessari skýrslu: Eins og sakir standa er ekki við öðru að búast en því að innanlandsflugið verði hér a.m.k. um fyrirsjáanlega framtíð. Samt sem áður bera mjög margir Reykvíkingar ugg í brjósti út af því líka og segja sem svo: Það verður að leggja áherslu á verulega miklar endurbætur á öryggisbúnaði í kringum flugvöllinn. Um þetta hefur verið full samstaða. Ég hef þó heyrt að uppi hafa verið vissar tilraunir í þá veru að gera lítið úr þessum málflutningi Reykvíkinga og ég er m.a. hingað kominn til að mótmæla því. Ég tel að þessi málflutningur eigi full rök á sér og ég veit að allir sanngjarnir menn sjá að svo er.

Í viðtali við borgarstjórann í Reykjavík sem birtist í Morgunblaðinu 3. mars 1996, þ.e. núna á dögunum, segir t.d. svo með, leyfi forseta, og þetta er viðtal sem áður hefur verið vitnað til hér:

,,Engin ákveðin afstaða hefur verið tekin af hálfu borgarinnar um hvað verður.`` Síðan segir borgarstjóri: ,,Ég held að það sé alveg ljóst að innanlandsflug verður áfram á Reykjavíkurflugvelli.`` En hún segir ,,innanlandsflug``. Það er lykilatriði í þessu viðtali. Og síðan segir hún: ,,Spurningin er með hvaða hætti það á að vera.``

Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þannig liggur vilji borgaryfirvalda í Reykjavík að menn vilja fara betur yfir það en gert hefur verið hvernig það á að vera. Mér er kunnugt um að það hafa verið í gangi, eins og vitnað er til í greinargerð flugmálaáætlunarinnar, viðræður á milli Flugmálastjórnar annars vegar og ég hygg samgrn. líka, ég man ekki betur en ráðuneytisstjórinn í samgrn. sé hluti af þeim viðræðum, og hins vegar skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar um framtíðarstarfsemi flugvallarins. Það er lykilatriði. Ég vil þess vegna þakka hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fyrir það að vekja athygli á þessu en segi jafnframt að mér finnst satt að segja ólíklegt miðað við þær upplýsingar sem ég hef, m.a. frá starfsmönnum Flugmálastjórnar sem eru í hliðarherbergjum, að þessum viðræðum verði að fullu lokið áður en það þing sem nú situr afgreiðir þá flugmálaáætlun sem hér liggur fyrir. Enda sé ég ekki að þar sé neinn skaði skeður þó að það verði ekki og það gæti tekið eitthvað aðeins lengri tíma að fá botn í þau mál. Mér finnst það skylda stjórnvalda, skylda samgrn., skylda flugmálayfirvalda og skylda borgarstjórnarinnar í Reykjavík að ná sátt um fyrirkomulag málsins vegna þess að menn eru líka að taka fé úr almannasjóðum til þess að kosta endurbætur á þessum flugvelli. Það verður því að halda þannig á þessum málum að um þau náist sem víðust samstaða. Það er í raun og veru höfuðatriði.

Ástæðan fyrir þessu er auðvitað m.a. sú, hæstv. forseti, að það er gert ráð fyrir því að samningur Reykjavíkurborgar og flugvallaryfirvalda um Reykjavíkurflugvöll renni út árið 2010, ef ég man rétt. Núverandi samningur rennur út árið 2010 og það verður að fara að vinna að því núna, því að nú er komið árið 1996, að undirbúa endurnýjun þess samnings og það hvernig þeim málum verður fyrir komið. Ég held þess vegna að þetta sé atriði sem verður að taka á af fullri alvöru. Frá sjónarhóli borgaryfirvalda gæti þetta svæði í Vatnsmýrinni og suður af henni líka verið heppilegt til annarra nota. En það er allt annað mál og þeirri umræðu sem hér fer fram óviðkomandi. Aðalatriðið í huga okkar Reykvíkinga í þessu máli er öryggi og aftur öryggi.