Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 14:35:46 (3516)

1996-03-05 14:35:46# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[14:35]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem upp að gefnu tilefni vegna þess að það kom fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar að ég geri lítið úr áhyggjum Reykvíkinga af öryggismálum flugs yfir Reykjavík. Ég hef fullan skilning á því og ég geri alls ekki lítið úr þeim áhyggjum.

Ég undirstrika að það er mjög áríðandi eins og ég sagði áður að menn reyni að ná skynsamlegri lausn í þessu máli og Reykjavíkurflugvöllur á stuðning minn. Það vil ég að komi skýrt fram þannig að enginn misskilningur verði út af þessu. En ég sagði það og segi það enn að við erum að fjalla um flugmálaáætlun. Þess vegna er alveg rétt eins og hv. þm. sagði að við þurfum að geta horft aðeins til framtíðar þegar við erum að fjalla um gerð flugmálaáætlunar og stóra málið í flugmálaáætlun er hvernig farið verður með uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar. Ég hef sagt það einu sinni á nefndarfundi í samgn. fyrir einu eða tveimur árum að það sé kannski niðurstaðan í þessu að menn verði að taka Reykjavíkurflugvöll, svo aðkallandi er framkvæmdin að það sé ástæða til að taka þetta mál út fyrir sviga ef svo mætti segja. Það gæti verið. En málið er mjög brýnt og fyrir það fyrsta má kannski átelja hvað menn hafa aðhafst lítið í þeim skipulagsmálum sem þarf að leysa.