Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 14:49:47 (3520)

1996-03-05 14:49:47# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[14:49]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti hv. þm. einfalda málin mjög eins og hann lagði flugmálaáætlun fyrir hér. (Gripið fram í: Ertu að brigsla honum um einfeldni?) Ég geri það já, eins og hann gerði grein fyrir sínum málum í þessu efni. Þannig standa sakir að það eru nægilegar tekjur af Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að standa undir vöxtum og afborgunum af henni ef peningunum hefði frá öndverðu verið varið til þess. Og ef samið hefði verið um lán til langs tíma til flugstöðvarinnar, hefði ekki risið þar upp það vandamál sem nú er.

Í öðru lagi liggur það alveg ljóst fyrir að þegar ákveðið var að verja þessum tilteknu tekjustofnum til flugmálaáætlunar var svo komið að nauðsynlegt var að byggja upp flugvelli hringinn í kringum landið, m.a. vegna ferðaþjónustunnar. Forsendan fyrir því að menn flykkist hingað til Íslands er auðvitað sú að þeir geti komist lengra áleiðis en til Miðnesheiðar þó að Reykjanesið sé að vísu einhver fallegasti partur landsins.

Ég vil í þriðja lagi segja að þegar verið er að byggja upp varaflugvöll eins og gert var á Egilsstöðum og eins og verið er að gera einnig á Akureyri, þá er verið að greiða fyrir millilandafluginu og draga úr útgjöldum við áætlunarflug til Íslands þar sem þoturnar þurfa t.d. ekki á varaflugvelli í Skotlandi að halda. Varaflugvöllurinn á Egilsstöðum er beinlínis í þágu millilandaflugsins. Síðast en ekki síst vil ég vekja athygli á því að á þessu ári er gert ráð fyrir að 190 millj. kr. renni til reksturs flugvalla. Hann var áður greiddur úr ríkissjóði. Það er ljóst að með því losnar annað fé sem hægt er að nota til að greiða niður áhvílandi skuldir og ábyrgðir á Flugstöð Leifs Eiríkssonar þannig að mér er ómögulegt að sjá að ekki hafi orðið breyting í þessum efnum og ekki sé komið til móts við þau sjónarmið í flugmálaáætlun fyrir þetta ár.