Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 15:03:12 (3525)

1996-03-05 15:03:12# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[15:03]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að hver horfi til síns kjördæmis þegar flugmálaáætlun er til umræðu og það mun ég einnig gera sem þingmaður Reykv. Ég held að við höfum þó öll í huga að þegar svo miklum fjármunum er varið fyrir jafnmikla hagsmuni og fólk á hér í húfi um allt land, ber okkur að halda þeirri yfirsýn sem mér finnst raunar hafa einkennt mál flestra þingmanna.

Ég hef sem flugráðsmaður náð að skoða flugmálaáætlunina nokkuð ítarlega og ég lýsi yfir fullu trausti og stuðningi við þau faglegu vinnubrögð sem ég sé að þar eru stunduð þar sem öryggismál hafa verið sett fremst, en síðan önnur í forgangsröð eftir þeim reglum sem þeir ágætu fagmenn hafa mótað sér sem að flugmálaáætluninni vinna.

Ég vil einnig láta koma fram að í greinargerð flugmálaáætlunarinnar er yfirlýsing um afkomu Flugmálastjórnar og ég tel sérstaklega ástæðu til þess að benda á hana. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Afkoma Flugmálastjórnar á undanförnum árum hefur verið mjög góð. Rekstrargjöld og stofnkostnaður hafa nánast verið í samræmi við fjárheimildir og eru horfur á þessu ári að svo muni verða áfram. Rekstur Flugmálastjórnar er í stöðugri endurskoðun með hagræðingu í huga sem skilað hefur töluverðum sparnaði á undanförnum árum.`` Þetta tel ég að sé afar brýnt þegar svo miklir hagsmunir eru í húfi sem hér um ræðir.

Við höfum takmarkað fjármagn milli handa og verðum þess vegna að ætla okkur röð í þeim megináherslum sem við höfum að leiðarljósi í starfi við uppbyggingu flugmála í landinu. Ég lýsi fullum stuðningi við þá áhersluröð sem hér kemur fram, þ.e. að snúa sér fyrst að þeim brýnustu verkefnum sem um er að ræða víða úti um land, en snúa sér síðan að Reykjavíkurflugvelli. Það er hins vegar alveg nauðsynlegt, þótt það komi því miður ekki fram í þessari flugmálaáætlun, að tekin verði ákvörðun sem standi og fullt mark verði tekið á um uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar. Eins og allir vita var Reykjavíkurflugvöllur byggður á stríðsárunum og í undirlag hans var ekið rauðamölinni úr Rauðhólum. Hófst þar það hörmulega malarnám sem spillti þeim. Ég vonast til þess að ekki verði gengið á námur í grennd við Reykjavík nema í samræmi við umhverfismat og náttúruverndarsjónarmið þegar ráðist verður í gerð Reykjavíkurflugvallar.

Það er öllum kunnugt að Reykjavíkurflugvöllur er ekki aðeins flugvöllur Reykvíkinga, hann er flugvöllur alls landsins. 90% af farþegum í innanlandsflugi koma til Reykjavíkur. Þangað koma 300 þúsund farþegar og til samanburðar má nefna að um Keflavíkurflugvöll fara hartnær 800 þús. og um Akureyrarflugvöll vel á annað hundrað þúsund farþegar. Það hefur komið fram í umræðum hvernig ástand flugvallarins er. Ég tek þó undir mál hv. þm. Svavars Gestssonar, við skulum láta dóm um öryggismál og áhættu í hendur fagmanna og vara við óábyrgum hræðsluáróðri um hættu og annað sem ekki styðst við faglegt mat. En ástandi Reykjavíkurflugvallar er best lýst í skýrslu sem flugmálastjórn hefur látið Almennu verkfræðistofuna gera. Þar kemur fram að norður-suður brautina þarf að hækka um 1,5 metra í norðurenda svo hann uppfylli skilyrði um sjónlengd. Þverhalli flugbrauta, akbrauta og flughlaða er mjög víða ófullnægjandi fyrir afvötnun. Pollar myndast víða á flughlöðum. Sléttleiki flugbrauta er almennt allsendis ófullnægjandi miðað við þær kröfur sem gerðar eru. Merkingum er víða áfátt og ljósabúnaður rangt staðsettur. Síðan segir um flugbrautir:

,,Malbik er í misjöfnu ástandi og eru sérstaklega útlagnarsamskeyti farin að gefa sig. Steypan er sums staðar heilleg en annars staðar mikið brotin.``

Þessu þarf að sjálfsögðu að kippa í lag með góðu og snöggu átaki, ef svo má til orða taka um framkvæmdir. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að hún láti frá sér fara stefnumörkun og ákvörðun um að ráðist verði í þetta verkefni og hafist verði handa á næsta ári, en að sjálfsögðu er ekki hægt að ráðast í þetta verkefni nema með lántöku. Uppbygging Reykjavíkurflugvallar kostar á bilinu 1--1,2 milljarða. Allir sem í flugmálaáætlun líta sjá að það er vitavonlaust að ætla henni að standa undir slíku. Með hliðsjón af því hversu verkefnið er brýnt og vegna hagkvæmni framkvæmda þarf að ráðast þar í lántöku og klára þetta verkefni á tveim til þrem árum. Nú eru ætlaðar til þess þrisvar sinnum tíu milljónir. Í flugmálaáætlun segir að þær séu til rannsókna og þróunarverkefna, en í greinargerðinni kemur fram að þar er m.a. átt við byggingu flugstöðvar, þarfagreiningar og rýmisathugun á byggingum og flughlöðum, þ.e. í fyrsta skipti kemur mér vitanlega fram að það á að ráðast í forathugun vegna flugstöðvarinnar. Henni þarf að velja stað vegna þess að þegar ráðist verður í gerð flugvallarins og byggingu hans þarf að ganga frá flughlöðum og nýta uppgröftinn m.a. til þess að hækka norður-suður brautina, sem ég gerði stuttlega að umtalsefni áðan.

Bygging flugstöðvarinnar sjálfrar getur þó væntanlega ekki orðið á þessu flugmálaáætlunartímabili. Hún hlýtur að frestast, enda er þar væntanlega um mörg hundruð millj. kr. fjárframkvæmd að ræða. Sennilega mun það bíða fram yfir aldamót þótt ég sé ekki að draga úr því sem ég hef heyrt á fagaðilum í ferðaþjónustunni, en þeir telja ástand flugstöðvarinnar í Reykjavík einn þann þröskuld sem stendur hvað mest fyrir uppbyggingu ferðamála bæði í Reykjavík og úti um landið. Ég vil líta svo á að yfirlýsing borgarstjórans sem kom fram í Morgunblaðinu um daginn og vitnað hefur verið í, sé óyggjandi og afdráttarlaus um það að Reykvíkingar vilji hafa flugvöllinn í Reykjavík. Ég tek hins vegar undir það sem hér hefur komið fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar. Að sjálfsögðu þurfum við aðeins að skoða það hvers konar tegund af flugsviði við ætlum að hafa hér, ef við fáum einhverju um það ráðið.

Tími minn er á þrotum en ég vil að það komi fram að það er óhjákvæmilegt að við látum af hendi flugmálaáætlunarfé á næstu árum til að styrkja fjárhag Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Það er algerlega óviðunandi að ekkert af þeim tekjum sem koma frá farþegafluginu, sem fer nú vaxandi sem betur fer, fari í að bæta aðstöðuna þar. En að sjálfsögðu þarf mun meira til en gert verður með því framlagi.