Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 15:25:22 (3531)

1996-03-05 15:25:22# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[15:25]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir þeirri breiðu samstöðu sem tekist hefur um að standa saman um það verkefni að hægt verði að ráðast í endurnýjun slitlags á Reykjavíkurflugvelli. Það er rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að það er nauðsynlegt að verja verulegu fé og nægjanlegu fé til undirbúningsrannsókna og athugana í sambandi við slík verkefni og það er raunar innifalið í framkvæmdarliðnum, umhverfismat og annað sem því tengist þegar bæði flugmálaáætlun, hafnaáætlun, vegáætlun og margt viðkomandi framkvæmd.

Ég vil í annan stað segja út af þeim umræðum sem snúist hafa um Flugstöð Leifs Eiríkssonar að um það hefur verið algert samkomulag fram að þessu að flugmálaáætlunin snúist um uppbyggingu á flugvöllum innan lands og það hefur ekki verið tengt Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Á hinn bóginn er alveg ljóst í mínum huga að það hefur ekki verið tekið á fjárhagsvanda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eftir að sú bygging var risin og ég tel að það eigi pólitískar rætur. Ég hygg að það sé hins vegar rétt að reyna að stuðla að því að samkomulag takist um það hvernig leysa skuli þennan fjárhagsvanda og ég hef lýst því yfir af minni hálfu að ég er reiðubúinn til þess að stuðla að því að 60 millj. kr. renni til þess af flugmálaáætlun og um það hefur orðið samkomulag.

Ég held að það sé alveg ljóst að hvorki hv. þm. Jón Kristjánsson né aðrir hafa fram undir þetta verið reiðubúnir til þess að leggja til hliðar fé af flugmálaáætlun í þessu skyni en raunar hlýt ég að lýsa því yfir eins og ég gerði áðan á nýjan leik að þegar hér er gert ráð fyrir því að 190 millj. kr. á fjárlögum þessa árs renni beinlínis til rekstrar í flugmálum sé með því verið að koma til móts við kröfuna um að hluti af þessum fjármunum renni til þess að greiða niður skuldir vegna Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.