Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 15:27:42 (3532)

1996-03-05 15:27:42# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[15:27]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt. Ég hef ekki haldið langar ræður um flugmálaáætlanir undanfarinna ára um að greiða skuldir þessarar flugstöðvar og ég átta mig ekki á og ætla ekki að kafa í þessa grasafræði hæstv. ráðherra með pólitískar rætur. Ég leiði það hjá mér. Ég var eingöngu að tala um framtíðina í þessum efnum og að málefni flugstöðvarinnar hlytu að vera hluti af því dæmi sem við erum að tala um þegar við ræðum flugmálin í landinu og að verja tekjum af fluginu til uppbyggingar og rekstrar á flugvöllum. Það var inntak ræðu minnar. Við verðum að halda samstöðu um þetta og ég lýsi ánægju með það og stuðningi við það að það er vísir að þessu núna og menn eru að byrja á þessu af takmörkuðum fjármunum. Aðalatriðið er að halda samstöðu um uppbyggingu á þessu neti, bæði Reykjavíkurflugvöllur og landsbyggðarflugvellirnir og búa í haginn fyrir millilandaflugið. Allt er þetta samtengt í órjúfanlega heild.

Ég viðurkenni það vel að hugur minn er náttúrlega eins og annarra nokkuð bundinn við kjördæmi mitt í þessum efnum og ég hef talað þar fyrir ýmsum framkvæmdum á undanförnum árum og það hefur miðað verulega í því efni þó að margt sé reyndar eftir.