Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 15:30:05 (3533)

1996-03-05 15:30:05# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, KHG
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[15:30]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst minnast á ákvörðun sem er sennilega orðin tíu ára gömul um að semja sérstaka flugmálaáætlun til langs tíma og reyna að skipta verkum niður á flugvelli eftir því sem menn hafa komið sér niður á að væri skynsamlegt, bæði hvar ætti að hafa flugvelli og hvað ætti að gera á hverjum stað.

Í upphafi var gert ráð fyrir því að ljúka endurbyggingu eða uppbyggingu flugvallanna á Íslandi á tíu árum. Værum við þá líklega að ljúka því á þessu ári eða hinu næsta, ef menn hefðu staðið við þá áætlun sem samþykkt var á sínum tíma. Jafnframt var séð fyrir fjárhag áætlunarinnar með sérstökum tekjustofnum sem hafa verið til umræðu hér. Eldsneytisgjald og flugvallargjald áttu að bera uppi hitann og þungann af kostnaði við þessa endurbyggingu, en því til viðbótar átti að leggja til fé úr ríkissjóði eftir þörfum.

Það má segja að reynslan hafi sýnt að þetta hafi haft bæði sína kosti og galla. Áætlunargerðin sem slík hefur að mínu viti tvímælalaust sannað kosti sína. Menn gerðu langtímaáætlun, skilgreindu verkefnið, brutu það niður og reyndu að raða því niður í tímaröð. Þrátt fyrir röskun á tíma hefur sú áætlun að öðru leyti haldist í meginatriðum. Núna standa eftir framkvæmdir fyrir um það bil 5 milljarða kr. Ef við ætluðum að ljúka þeim af á tíu árum, þ.e. fyrir árið 2006, þyrfti að veita um 500 millj. kr. á ári til uppbyggingar flugvalla. Ókosturinn sem komið hefur í ljós við þessa áætlanagerð er einmitt að menn hafa ekki staðið við fjármögnunina. Menn væru þá að vinna verkið á tuttugu árum í staðinn fyrir tíu ár. Í heildina er það kannski ekki svo slæmt að menn ættu að hætta við að marka sér stefnu og standa að áætlanagerð eins verið hefur. Ég held að kostirnir við það séu tvímælalaust miklu meiri en sá ókostur sem er veikleiki allrar áætlunargerðar hér á landi, þ.e. að menn freistast til þess að standa ekki við fjarhagsþátt málsins. Sú áætlun sem nú er til umfjöllunar ber glögglega með sér að ríkisstjórnin sem nú situr gengur lengra í því en aðrar ríkisstjórnir á þessu tíu ára tímabili að raska fjárhagsgrundvelli áætlunarinnar.

Á þeim fjórum árum sem áætlunin nær til, 1996--1999, er gert ráð fyrir að skerða framkvæmdagetu tekjustofnanna um tæpan hálfan milljarð kr. eða sem nemur einum tíunda hluta þess fjár sem talið er að þurfi til að ljúka uppbyggingu flugvalla á Íslandi. Og ef við tökum með síðasta ár þar sem var skorið niður um tæplega 100 millj. kr., kemur í ljós að á fimm ára tímabili er niðurskurðurinn um 600 millj. kr. Það munar um minna þegar um slíkar stærðir er að tefla í heildarsamhenginu við 5 milljarða. Það er alveg óþolandi að metnaðarleysi hæstv. ríkisstjórnar skuli vera sem raun ber vitni, að hún skuli ekki glíma við fjárhagsvandann þar sem hann er en ráðist þess í stað á önnur verkefni sem búið er að taka út fyrir sviga í ríkisfjármálum með sérstökum tekjustofnum og hirði þær tekjur inn í ríkissjóð í stað þess að glíma við vanda ríkissjóðs og útgjöld hans.

Kostnaður við uppbyggingu flugvalla fer auðvitað eftir því hvaða forsendur menn gefa sér. Það skiptir t.d. verulegu máli hvort menn gera ráð fyrir að byggja upp flugvelli sem eiga að þola umferð Fokkervéla eða minni véla eins og t.d. Twin Otter. Mér hefur fundist einn helsti gallinn á langtímaáætlun í flugmálum vera sá að þar væri um of byggt á áætlunum Flugleiða um flugvélaflota. Það hefði verið hægt að byggja upp þessa flugvelli fyrir minna fé ef menn hefðu gefið gaum öðrum flugvélategundum sem eru fullboðlegar hér á landi og eru nú um þessar mundir að ryðja sér rúms á æ fleiri flugleiðum, t.d. þeim flugvélum sem Íslandsflug notar nú og hefur notað um skeið.

Ég vil aðeins víkja að flugvöllum á Vestfjörðum, en eðli málsins samkvæmt eru flugvellir flestir þar sem samgöngur eru verstar við aðra hluta landsins. Þetta á einkum við norðaustur- og norðvesturhluta landsins. Ef við skoðum samgönguáætlanir í samhengi við vegamál og hafnamál er ljóst að þróunin hefur verið og verður sú að vegagerð sækir æ meira á á kostnað flugmála. Þannig er t.d. rekstur áætlunarflugvalla varla fyrir hendi í stórum hluta landsins sem er í grennd við höfuðborgarsvæðið eða í góðum samgöngum við það eins og t.d. Suðurland, að frátöldum Vestmannaeyjum, Reykjanes, Vesturland og Norðurl. v. að mestu leyti. Þróunin er í þá átt að það svæði þar sem bílaumferð hefur vinninginn umfram flugumferð fer heldur stækkandi samhliða þeirri þróun að vegirnir eru smátt og smátt að batna. En eftir stendur að flugumferð er og verður mikilvægust á ystu svæðum landsins eins og Vestfjörðum. Þar er mikilvægast að menn haldi sig við þær áætlanir sem menn hafa gert um uppbyggingu flugsamgangna og nýti önnur samgöngumannvirki til að nýta flugvellina sem best. Það á bæði við um uppbyggingu flugs inn á sunnanverða Vestfirði og norðanverða Vestfirði.

Ég tek eftir því, virðulegi forseti, að á norðanverðum Vestfjörðum er ekki gert ráð fyrir fé til að byggja upp flugvöllinn á Þingeyri né heldur halda við flugvellinum á Flateyri og einungis gert ráð fyrir að leggja til fé til uppbyggingar á Ísafirði. Auðvitað munu jarðgöngin virka þannig að notagildi flugvallanna á Flateyri og Þingeyri eykst. Við eigum að bregðast við því með því að haga fjárveitingum þannig að batnandi samgöngur á landi nýtist okkur sem best, ekki með því að þurrka út allar fjárveitingar til þessara flugvalla eins og hér er lagt til.