Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 15:38:58 (3534)

1996-03-05 15:38:58# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[15:38]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Óþolandi metnaðarleysi, sagði hv. þm. á undan mér. Ég veit ekki hvaða orð ég á að hafa um þetta. Við stöndum frammi fyrir miklum niðurskurði í viðkvæmum málum eins og heilbrigðismálum, ég minni aðeins á innritunargjaldið á sjúkrahúsin sem var 80 millj. á ári, og svo gagnrýnir ræðumaður á undan mér að við skulum skera niður flugmálaáætlun um 100 millj. Ég skammast mín ekki fyrir að skera niður flugmálaáætlun um 100 millj. og nýta þá sömu peninga í heilbrigðismálin, jafnmörg og brýn verkefni sem þar eru. Mér hefur fundist að við værum sátt að mestu leyti um þá megindrætti sem eru í þessari flugmálaáætlun. Hér eru miklir hagsmunir í húfi, hér er mikið fjármagn sem við höfum milli handa, en þó ekki nóg. Megindrættirnir eru þeir að byggja upp flugvellina úti á landi, sinna þar brýnustu verkefnunum, en eiga það síðan alveg víst að það verði gengið í Reykjavíkurflugvöll. Um það hljótum við öll að sameinast. Ekki aðeins vegna okkar Reykvíkinga, heldur vegna þess að það eru líka hagsmunamál landsbyggðarinnar og landsins alls að byggja upp Reykjavíkurflugvöll.

Vegna orða þeirra sem hér hafa fallið vil ég gera þá skýlausu kröfu til borgarstjórnar Reykjavíkur að hún gefi afdráttarlausa og marktæka yfirlýsingu um það hvort flugvöllurinn eigi að vera þarna í náinni framtíð eða ekki. Við sem erum að berjast fyrir Reykjavíkurflugvelli, og þar eru bæði menn í stjórn og stjórnarandstöðu, verðum að hafa þetta leiðarljós ef við eigum að sinna þessu mikilvæga verkefni. Ég kalla eftir ákvörðun sem hægt er að taka mark á frá ríkisstjórninni um það að tekið verði til við Reykjavíkurflugvöll á næsta ári.