Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 15:44:01 (3537)

1996-03-05 15:44:01# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[15:44]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það háttar svo til að við höfum verið með þrjá flugvelli á þessu svæði og við eigum auðvitað ekki að reka fleiri flugvelli en við þurfum á að halda. Ég hef því ekkert við það að athuga ef menn geta fækkað flugvöllunum án þess að það komi niður á flugtíðninni. En vandamálið á norðanverðum Vestfjörðum er það hve oft er ófært á Ísafjarðarflugvöll. Við höfum því litið til þess að jarðgöngin mundu gera okkur kleift að komast oftar fljúgandi vestur en verið hefur með því að geta lent á völlunum vestan heiða, þ.e. fyrst og fremst á Þingeyri. Til að þetta nýtist þarf í fyrsta lagi að taka ákvörðun um framtíð Þingeyrarflugvallar sem hefur verið í biðstöðu nokkur ár. Og samkvæmt þessari áætlun er ekki lagt til að neitt fé fari í þann völl á næstu fjórum árum. Það er afleitt því að þá eru menn einfaldlega að segja að við ætlum okkur að nota bara einn flugvöll til að fljúga inn á þetta svæði. Það bætir okkar stöðu ekki neitt sem búum á þessu svæði. Til þess að bæta samgöngurnar og nýta kosti hinna flugvallanna, þurfum við að hafa þá í lagi og hafa starfsmenn þannig að það sé hægt að nota þessa flugvelli.