Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 15:45:01 (3538)

1996-03-05 15:45:01# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, GHall
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[15:45]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það hefur verið athyglisvert að hlusta á þá þingmenn sem koma frá hinni dreifðu byggð þegar rætt er um Reykjavíkurflugvöll. Mér finnst eins og þeir slái nokkuð í takt við þá staðreynd sem nú blasir við að uppbygging Reykjavíkurflugvallar er forgangsverkefni og eitt af stærstu verkefnum sem eru fram undan í flugmálum. Hins vegar er ég ekki hissa á því þó að staðsetning vallarins velkist nokkuð fyrir mönnum en þó heyrist mér svo að menn séu sammála því að það sé eðlilegt að flugvöllurinn verði þarna a.m.k. í nánustu framtíð hvað svo sem menn horfa langt fram veginn í því sambandi. Einkum og sér í lagi skil ég það mjög vel vegna þess að það hlýtur að vera mikið atriði fyrir aðila sem koma utan af landi til Reykjavíkur og fara frá Reykjavík að eiga ekki um langan veg að sækja að eða frá frá flugvelli þegar komið er til höfuðborgarinnar.

Það hefur áður komið fram að talað er um að setja um 1.000--1.400 millj. í Reykjavíkurflugvöll til þess að byggja hann upp. Þegar menn tala um óþægindi af flugi inn á Reykjavíkurflugvöll tengist það einkum þeim sem næst búa flugvellinum en aðrir í úthverfum borgarinnar verða ekki svo mjög varir við umferð Reykjavíkurflugvallar.

Mér finnst að atvinnumálaþátturinn hafi nokkuð gleymst í umræðunni því að Reykjavíkurflugvöllur er með stærri vinnustöðum í höfuðborginni. Ég tek það ekki mjög alvarlega þegar menn tala um að það sé rétt að flytja flugvöllinn vegna þess að hann er það mikilvægur í atvinnumálum fyrir okkur Reykvíkinga að ég sem þingmaður Reykvíkinga mun beita mér fyrir því að hann muni verða hér í nánustu framtíð.

Menn hafa talað um kjördæmapot og minnt á aðra flugvelli landsins. Ég tel að það sé ekkert óeðlilegt. Hins vegar finnst mér samt sem þingmenn hinna dreifðu byggða tali öðruvísi gagnvart Reykjavíkurflugvelli en þeir hafa gert áður. Það hefur líka sýnt sig í vegaframkvæmdum að menn tala öðruvísi nú en þeir hafa gert áður hvað höfuðborgarsvæðið áhrærir.

Ég á sæti í flugráði og hef getað fylgst mjög náið með þeim vinnubrögðum sem þar fara fram. Ég tek undir það með hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni að hjá Flugmálastjórn er mjög vönduð og ígrunduð vinnuaðferð sem mörg önnur ríkisfyrirtæki mættu taka sér til fyrirmyndar þá hlutir eru lagðir niður fyrir flugráð og menn ræða um framkvæmdir, kosti þeirra og galla og eins niðurröðun. Í flugráði hefur verið samþykkt að reyna að ljúka öllum verkefnum hinna smærri flugvalla áður en kemur að hinni stóru framkvæmd í uppbyggingu og enduryggingu Reykjavíkurflugvallar og það er vissulega af hinu góða.

Þegar þær ræður sem hér hafa verið fluttar eru skoðaðar grannt þá finnst mér þær endurspegla það sem samgrh. hefur sagt um nokkuð langan tíma, þ.e. að full ástæða sé til þess að líta yfir völlinn allan og skoða samtengingu vega, flugvalla og hafna. Við stöndum frammi fyrir því að nýting þessara mannvirkja þarf að vera skynsamleg. Auðvitað þurfum við líka að horfa á það hvaða vellir, hafnir og vegir það eru sem við ætlum að leggja áherslu á með tilliti til þessara meginþátta samgöngumála á Íslandi vegna þess að við höfum ekki endalaust fjármagn til þess að byggja það upp sem menn vildu gjarnan gera. Þess vegna er mjög af hinu góða að menn hafa látið skynsemina ráða og vilja byggja upp það sem kemur hverjum Íslendingi best til nota hverju sinni.