Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:06:16 (3546)

1996-03-05 16:06:16# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:06]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég var að velta því fyrir mér þegar hv. þm. talaði um að Framsfl. hefði ráðið landbúnaðarstefnunni á undanförnum árum hvort það heyrðist í mér ef ég segði eins hás og ég er: ,,Þú mátt ekki gleyma garminum honum Katli.`` En það er að vísu annað mál.

Ég held að það sé mikill misskilningur hjá hv. þm. ef hann telur að mál Reykjavíkurflugvallar hafi ekki verið rædd fyrr en á síðasta vetri eða svo. Eins og sést á þeirri flugmálaáætlun sem samþykkt var í maímánuði 1994 var þegar gert ráð fyrir því að 100 millj. kr. yrði varið til flugvallarins á næsta ári vegna þess að þá þegar var hafinn undirbúningur þess að endurnýja slitlag á vellinum. Ég átti á þeim tíma viðræður um það mál, bæði við þáv. borgarstjóra, Markús Örn Antonsson, og síðar við Árna Sigfússon borgarstjóra og þeir sýndu því jafnframt aukinn áhuga að ný flugstöð risi á Reykjavíkurflugvelli í stað þeirrar gömlu sem menn notast nú við. Á hinn bóginn hafði ég ekki stuðning til þess að taka það mál upp einmitt vegna þess að brýn verkefni önnur biðu úrlausnar sem var nauðsynlegt að fara í. Um það varð þess vegna pólitískt samkomulag milli mín og Alþfl. á þeim tíma að Reykjavíkurflugvöllur biði ársins 1997 og það var í fullri sátt við þáverandi yfirvöld Reykjavíkurborgar og hefur ekki breytt neinu um þær áherslur þó nýr pólitískur borgarstjórnarmeirihluti hafi verið kjörinn til að ráða málefnum Reykjavíkurborgar.