Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:09:43 (3548)

1996-03-05 16:09:43# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:09]

Árni Johnsen (andsvar):

Virðulegi forseti. Í flugsögunni eru til dæmi um ýmsar gerðir flugvéla sem hafa verið smíðaðar sem hafa aldrei komist í loftið. Þær hafa komist á braut og þær hafa verið keyrðar af miklu afli en þær hafa ekki náð fluginu. Þannig er með hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hann baksar út og suður og hjartað berst í miklum móð en hann kemst ekki af brautinni. Hann blaðrar um hluti sem hann hefur ekki sett sig inn í og viðurkennir reyndar og hann vænir menn um hluti sem þeir bera ekki ábyrgð á. Til að mynda sagði hv. þm. Össur Skarphéðinsson að í fyrrum borgarstjórnarliði sjálfstæðismanna í Reykjavík hefðu verið fulltrúar í forsvari sem hefðu verið á móti Reykjavíkurflugvelli. (ÖS: Þungavigtarmenn, sagði ég.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson getur ekki nefnt einn einasta mann, hvorki úr forsvari né þungavigtarmannaliði forustumanna Sjálfstfl. sem hefur verið á móti slíku í Reykjavíkurborg. Það hefur verið einróma samstaða um það að Reykjavíkurflugvöllur yrði staðsettur þar sem hann er enda eru menn í rauninni að tala um það að leggja niður höfuðborg Íslands, Reykjavík, ef þeir eru að tala um að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Það er samsvarandi og að leggja niður höfuðborgina formlega með þá stöðu í íslensku samfélagi vegna þess að höfuðborgin er til þjónustu fyrir landið allt og Reykjavíkurflugvöllur er lykill landsbyggðarinnar að höfuðborginni, lykill númer eitt, tvö og þrjú. Auðvitað eru gagnkvæmir hagsmunir fyrir Reykvíkinga til að komast út á land en fyrst og fremst er Reykjavíkurflugvöllur lykill landsbyggðarinnar að höfuðborginni. Það segir sína sögu þar sem 330 þúsund farþegar fara um Reykjavíkurflugvöll á ári og lendingar alls eru um 50 þúsund talsins.