Lækkun lífeyrisbóta 1. mars

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:32:05 (3554)

1996-03-05 16:32:05# 120. lþ. 100.93 fundur 210#B lækkun lífeyrisbóta 1. mars# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:32]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda umræðuna. Hér er rætt um skammarlega framkomu ríkisstjórnarflokkanna við eldri borgara þessa lands. Flokkana sem tældu fólk með gylliboðum til fylgilags með fyrirheitum í síðustu kosningum eins og þessum: Við búum öldruðum gott ævikvöld. Og einnig: Aldraðir eru sá þjóðfélagshópur sem öðrum fremur á skilið þakklæti þjóðfélagsins í formi góðrar aðhlynningar. Þetta var auðvitað fyrir kosningar.

Herra forseti. Á sama tíma og 67 ára og eldri er ýtt út af vinnumarkaðnum eru komugjöld þeirra til lækna hækkuð verulega fyrir utan þá skerðingu á kjörum aldraðra sem hér er til umræðu og nemur að meðaltali 10--12%. Það er hryggilegt að þurfa að horfast í augu við það að 62% þjóðarinnar styður ríkisstjórnina í slíkum aðgerðum samkvæmt könnun Gallups. Þar á meðal eru þeir öldruðu sem verða fyrir þessum niðurskurði ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstfl. Ég ætti að lýsa yfir viðurstyggð á þessum aðgerðum. Mér hefur verið ljóst og ég hef sagt það að eins og samsetning ríkisstjórnar er er hún eitthvað það daprasta sem fyrir gat komið. Því fordæmi ég þessi verk og lýsi hryggð yfir þeirri óhæfu sem er verið að vinna með aðför að kjörum aldraðra, skerðingu styrkja, fækkun stoðleyfa í gegnum tryggingakerfið fyrir þá sem verst eru staddir. Þetta gerist á þessum dögum þegar vorið er að heilsa og laukar að skjóta öngum sínum upp úr moldinni.

Herra forseti. Ég ætla ekki að spyrja spurninga. En ég segi að ávöxtur illra aðgerða, þessi árás á aldraðra birtist sem staðreynd hjá vondri ríkisstjórn.