Lækkun lífeyrisbóta 1. mars

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:37:06 (3556)

1996-03-05 16:37:06# 120. lþ. 100.93 fundur 210#B lækkun lífeyrisbóta 1. mars# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:37]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Samúð mín með hæstv. heilbr.- og trmrh. er djúp og rík. Það hlýtur að vera ömurlegt hlutskipti að bera ábyrgð á þeirri aðgerð sem hér er um að ræða og ég þakka hv. 18. þm. fyrir að taka það upp utan dagskrár. En svo djúp og rík sem samúð mín er í garð hæstv. ráðherra hlýtur hún að víkja fyrir öðrum þeim tilfinningum sem aðgerð þessi vekur.

Hér er, eins og fram hefur komið, verið að lækka svokallaða hámarksuppbót til elli- og örorkulífeyrisþega sem þurfa að bera verulegan sjúkra- eða lyfjakostnað, mikinn kostnað vegna umönnunar, vegna húsaleigu sem fellur utan húsaleigubóta eða vegna vistunarkostnaðar á dvalarheimilum eða á öðrum stöðum með starfsleyfi frá ráðuneyti og þessi hámarksuppbót er því aðeins heimil ef sýnt þykir að lífeyrisþegi geti ekki framfleytt sér án hennar. Þessa upphæð á að skerða og maður hlýtur að spyrja: Hvers konar veruleikafirring er eiginlega ríkjandi í ráðuneyti heilbrigðis- og tryggingamála og í huga hæstv. ráðherra þessara mála að menn skuli yfirleitt láta sér koma til hugar að plokka peninga af fólki sem getur ekki framfleytt sér án þeirra? Ég spyr eins og hv. málshefjandi spurði áðan: Er hægt að leggjast öllu lægra?

Hæstv. ráðherra sagði áðan sér til varnar að bætur hefðu hækkað í hennar tíð að manni skildist svona almennt. Ekki held ég að fólk hafi almennt orðið vart við þá hækkun. Þó svo væri hafa þessar bætur aldrei verið svo háar að þær þyrftu ekki að hækka. En við erum að tala um bætur sem eru ætlaðar þeim sem geta ekki framfleytt sér án þeirra. Það er skilgreint þannig í lögunum og þeirri skilgreiningu er ekki verið að breyta heldur þrengja að þeim sem svo er ástatt með. Ef einhverjar bætur eru hækkaðar svo að minni þörf er á sérstakri uppbót er það auðvitað hið besta mál. En þeir sem ekki geta framfleytt sér mega ekkert missa.

Það verið nefndar tölur áður í umræðunni og þær eru ekki háar hver fyrir sig en þær skipta viðkomandi miklu máli. Ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða þessa siðlausu ákvörðun, breyta reglugerðinni á nýjan leik og skila elli- og örorkulífeyrisþegum aftur þessum skafkrónum sem skipta þá svo miklu en ríkissjóð harla litlu.