Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 17:02:54 (3564)

1996-03-05 17:02:54# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[17:02]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það er ekki undarlegt þó mikið sé rætt um Reykjavíkurflugvöll í þessari umræðu þar sem átaksþættirnir í uppsetningu flugmálaáætlunar tengjast honum beinlínis. Það má segja að Reykjavíkurflugvöllur hafi um langt árabil verið í fjármagnssvelti til framkvæmda á sama tíma og unnið hefur verið stórátak í uppbyggingu flugvalla úti á landsbyggðinni. Nú hefur verið tekin sú ákvörðun að taka til hendinni við uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar og er það fyllilega tímabært.

Hún hefur farið hér svolítið út og suður umræðan um staðsetningar og vilja í hinu pólitíska litrófi. Það var fróðlegt að heyra hv. þm. Össur Skarphéðinsson snúa hlutunum beinlínis við með málflutningi sínum fyrr í dag. Hann lagði spilin þannig á borðið að það væri að frumkvæði R-listans í Reykjavík að taka ætti til við uppbyggingu á Reykjavíkurflugvelli sem er auðvitað alrangt, þar eru þröskuldarnir. Sem betur fer eru skiptar skoðanir innan þess hóps en þar eru þröskuldarnir í framkvæmdinni. Menn verða að horfa til þess. Það hefur hvergi verið gerð nein formleg samþykkt um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Spurningin er hins vegar hvort ekki sé næg samstaða innan meiri hluta R-listans í Reykjavíkurborg til að standa að áframhaldandi veru Reykjavíkurflugvallar í óbreyttri mynd. Spurningin er hvort þeir sem fara með forustu í Reykjavíkurborg ætla að stöðva uppbyggingu vallarins út frá öryggissjónarmiði og út frá öllum þáttum sem lúta að samgöngum á Íslandi. Það er stóra spurningin. Menn hafa verið að reyna að gera eitthvað úr viðtali við borgarstjórann í Reykjavík, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, í Morgunblaðinu sl. sunnudag. Þar sagði hún að það væri sín skoðun að Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera áfram í Reykjavík. Það segir þó ekki að það sé meirihlutasamþykkt fyrir því hjá R-listanum í Reykjavík. Það hefur engin samþykkt verið gerð þar að lútandi. Við vitum að um þetta eru skiptar skoðanir og mikill ágreiningur. Það hefur best komið fram í máli forseta borgarstjórnar, Guðrúnar Ágústsdóttur, sem hefur haft miklar efasemdir í þessum efnum og aðrar skoðanir varðandi nýtingu á landi því sem Reykjavíkurflugvöllur stendur á. Nú er það ekki svo að Reykjavíkurborg eigi það land. Stærstur hluti þess lands sem Reykjavíkurflugvöllur er á er í eigu ríkisins, það er ekki borgarland.

Ef upp koma hugmyndir um að leggja þennan völl niður þá er verið að tala um að gjörbreyta öllu samgöngukerfi, öllu mynstri þjóðarinnar, ekki síst í samskiptum landsbyggðar og höfuðborgar. Að mínu mati er það svo að það sjónarmið að leggja niður Reykjavíkurflugvöll eru aðför að landsbyggðinni og aðför að Reykjavíkurborg. Það eru ekki bara hundruð starfa í Reykjavík sem tengjast Reykjavíkurflugvelli, það eru þúsundir starfa. Í ræðum fyrr í dag hefur verið vitnað til að ekki hafi verið vilji til þess í borgarstjórn að samþykkja tillögur sjálfstæðismanna um úttekt á mikilvægi vallarins með tilliti til atvinnu. Það segir einfaldlega að menn vilja ekki taka af skarið í þessu. Menn draga lappirnar, menn hafa ekki samstöðu, menn hafa ekki umboð til að taka af skarið og segja: Auðvitað verður Reykjavíkurflugvöllur áfram við lýði sem eðlilegt þjónustuhlutverk við landsbyggðina og við þá sem hafa atvinnu af því í Reykjavíkurborg. En menn vilja ekki gera þessa úttekt vegna þess að þeir vilja ekki að staðreyndirnar komi á borðið. Það eru ekki bara hundruð starfa á vellinum sjálfum sem tengjast fluginu, þar koma til þúsundir starfa í veitingaþjónustu, leigubílaakstri, alls kyns opinberri þjónustu og mörgu öðru sem forvitnilegt væri að draga saman þegar menn leyfa sér þá árás á landsbyggðina að nefna það að leggja niður Reykjavíkurflugvöll í núverandi mynd sinni. Það er með ólíkindum að slíkt skuli koma upp og ber, vona ég, fremur vott um vanhugsaðan málflutning en beinan vilja.

Það kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að það væri fullt samkomulag milli ríkisvaldsins og Reykjavíkurborgar, þ.e. R-listans, um uppbyggingu vallarins. Um þetta gildir bara eitt orð, kjaftæði. Það liggur ekkert samkomulag fyrir um það. Samgrh. hefur lýst því yfir að hann hyggist fá á hreint hvort Reykjavíkurborg ætli að stöðva uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar. Það hefur komið fram í málflutningi borgarfulltrúa að slíkar hugmyndir séu á lofti. Auðvitað er ástæða til að spyrja um slíkt þótt það ætti að vera höfuðborgarinnar að taka af skarið og segja hingað og ekki lengra. Hér er verið að tala um þátt sem lýtur að miklum öryggisatriðum og þess vegna þýðir ekki að draga lappirnar í þeim efnum. Það er einmitt ósamkomulagið innan meiri hluta borgarstjórnar sem veldur því að það eru efasemdir um hvort hægt sé að hrinda þessu máli í framkvæmd eins og Alþingi er að leggja til.

Það væri forvitnilegt að vita hvar hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur fengið umboð til að tala fyrir hönd R-listans eins og henn hefur gert með því að lýsa yfir þessu samkomulagi sem er ekki til staðar og enginn fótur er fyrir. Þótt t.d. fulltrúar R-listans séu með hugmyndir um að byggja huggulegt íbúðarhúsahverfi í Vatnsmýrinni, yrði það miklu meiri röskun á öllum vatnsbúskap á því svæði heldur en ef flugvöllurinn yrði þar áfram í sömu eða svipaðri mynd.

Það er til margs að líta en það sem kannski helst stendur á í dag er það hvort Reykjavíkurborg ætlar að breyta skipulaginu með vegakerfinu í kringum Reykjavíkurflugvöll, breyta hlutum á þeim vegi sem gengur undir nafninu Hlíðarfótur, færa Miklubraut, sem þýddi styttingu einnar aðalflugbrautarinnar úr norðri o.s.frv. Það er margt sem skoða þarf. Það er komið að framkvæmdahliðinni og hún má ekki tefjast. Það þarf að ráðast í þessar framkvæmdir á næsta ári. Vonandi ber meiri hluti borgarstjórnar gæfu til að sporna ekki gegn því að átak verði gert í þessum efnum bæði með uppbyggingu flugbrautarinnar og byggingu nýrrar flugstöðvar, sem jafnframt er aðkallandi mál.