Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 17:17:25 (3567)

1996-03-05 17:17:25# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[17:17]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var á árinu 1991 að lögð var skýrla á borð samgrh. um Reykjavíkurflugvöll og það var sami samgrh. og situr enn í dag. Það er fyrst núna sem farið er að ræða þessi mál af einhverjum krafti milli aðila, m.a. milli flugmálayfirvalda og borgarmálayfirvalda í Reykjavík. Það er veruleikinn og ég tel þess vegna alveg hægt að setja hlutina þannig upp að borgaryfirvöld í Reykjavík hafi dregið samgrh. að viðræðuborðinu í málinu eins og ég gerði áðan. Það er líka alveg rétt hjá hv. þm. Árna Johnsen að það þarf auðvitað að taka inn í umræðu um framtíðarþróun Reykjavíkurflugvallar hluti eins og færslu Miklubrautarinnar og spurninguna um það hvort Hlíðarfóturinn verði lagður eða ekki. Ég hygg að það sé geysilega stórt atriði hvort Hlíðarfóturinn verði lagður eða ekki. Það er partur af þeirri skipulagsvinnu sem nú er verið að vinna og verið að ganga frá á vegum borgaryfirvalda í Reykjavík að því mér er best kunnugt um. Þess vegna er mjög mikilvægt að þrátt fyrir ágreining í aðdragandanum virðist geta orðið ágæt sátt um það að reyna að vinna sig út úr málinu á næstu mánuðum og það er mikilvægt fyrir borgaryfirvöld í Reykjavík. Það er þó aðallega mikilvægt fyrir þjóðina sem á flugvöllinn og Alþingi Íslendinga sem veitir fjármuni til þess að endurbæta hann frá því sem hann er núna.