Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 17:18:58 (3568)

1996-03-05 17:18:58# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[17:18]

Árni Johnsen (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið vitnað til skýrslu sem barst samgrh. 1991 um Reykjavíkurflugvöll og þróun og stöðu mála þar. Alveg frá því sú skýrsla kom hefur verið unnið skipulega að því á vegum samgrh. í flugráði og Flugmálastjórn að undirbúa það verkefni sem hér hefur verið til umræðu um uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar. Það lá ljóst þegar í upphafi af hálfu hæstv. samgrh. að það kæmi að því á þessum tímamótum að taka til hendinni við það verk. Það voru stór verkefni í gangi úti á landsbyggðinni sem tóku hrygginn úr fjármagni flugmálaáætlunar hvort sem þar var um að ræða uppbyggingu flugvalla á til að mynda Vestfjörðum, Egilsstöðum, sem var nú stærsta verkefnið, Akureyri, Vestmannaeyjum og víðar. Á öllum helstu völlum landsins bæði með uppbyggingu brauta og öryggisbúnaðar. Öll þessi vinna hefur verið í gangi öll þessi ár. Það er ekki að fara í gang núna. Ef borgarfulltrúar R-listans eða R-listinn í heild hefur ekki fylgst með og er að vakna núna af vondum draumi að hann hafi átt að vinna einhverja heimavinnu þá er það vel en þessi vinna hefur verið í gangi undanfarin ár í samfellu. (Gripið fram í.) Tala um að samgrh. hafi verið knúinn til viðræðna, þetta er bara eins og að segja svart sé hvítt eða öfugt. (Gripið fram í: Svo er það Hlíðarfóturinn.) Svo einfalt er þetta ekki. Hlíðarfóturinn, vel á minnst. Það hefur enginn sérstök vinna verið í gangi um tveggja ára bil um uppbyggingu Hlíðarfótar. Það hefur ekkert komið inn á borð hjá flugráði eða Flugmálastjórn sem staðfestir að það sé unnið að einhverjum markmiðum. Það er einfaldlega í biðstöðu. (Gripið fram í: Nei, R-listinn vill það ekki.) Og hv. þm. sem halda öðru fram ættu að kynna sér hvernig þau mál standa nákvæmlega. Mér er fullkunnugt um það því ég hef fylgst með frá mánuði til mánaðar vegna setu minnar í flugráði. Þetta eru staðreyndir málsins, vonandi fer maskínan að snúast og allt til jákvæðari vegar en það þýðir ekkert að vera að teygja lopann á einhverjum upplýsingum og fullyrðingum sem standast ekki. (Gripið fram í: Það er rétt, þingmaður.) Þetta hefur verið biðstaða af hálfu Reykjavíkurborgar um nokkurra missira bil og óskandi að menn taki til hendinni og kippi þessu í liðinn og séu ekki með neinn moðreyk í þeim efnum.