Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 17:21:58 (3569)

1996-03-05 17:21:58# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[17:21]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hlýt að láta í ljós ánægju mína yfir því hversu breið samstaða virðist vera á bak við þá flugmálaáætlun sem hér hefur verið lögð fram. Kjarni hennar er annars vegar sá að ljúka nauðsynlegustu endurbótum og uppbyggingu á flugvöllum úti á landi áður en ráðist er í að endurbyggja Reykjavíkurflugvöll. Hins vegar virðist vera mjög breið samstaða um það í þingsalnum að nauðsynlegt sé að endurbæta brautirnar í Reykjavík, og eina sem menn virðast í rauninni kvarta yfir er að ekki sé hægt að setja höfundareinkenni á flesta þá þingmenn sem hér hafa talað upp á síðkastið. Málið er auðvitað það eins og hv. þm. vita ... (ÖS: Setja hvað?) Merkja mönnum eða einstökum flokkum þá hugmynd að endurbæta Reykjavíkurflugvöll. Það er auðvitað erfitt vegna þess að þetta mál er í eðli sínu þannig að það hefur verið unnið að því af borgaryfirvöldum og samgrn. síðustu ár og mjög fast eftir að ég varð samgrh. og þá með fyrri borgarstjórum, þeim Markúsi Erni Antonssyni og Árna Sigfússyni. Það breytti engu um framgang málsins þótt Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði borgarstjóri þó að á hinn bóginn hafi heyrst raddir úr þeim borgarstjórnarmeirihluta sem nú er sem eru nokkuð hjáróma við það sem annars hefur yfirleitt heyrst frá ráðandi mönnum Reykjavíkurborgar.

Mér þykir líka vænt um að vita það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skuli styðja uppbyggingu flugmálaáætlunar að þessu leyti því hann veit það jafn vel og ég að auðvitað hefði það verið borin von í þeirri ríkisstjórn sem við sátum að áhersla af þessu tagi yrði tekin samhljóða á Alþingi eins mikill og áhugi Alþfl. var á því á þeim tíma að skera flugmálaáætlun niður. Ég held að þau sannindi verði að koma fram eins og þau voru úr því að hv. þm. gerir mikið úr stuðningi sínum við málið sem ég met mjög mikils.

Ég vil að öðru leyti aðeins segja að ég vona að samgn. muni geta afgreitt áætlunina mjög rösklega. Hún kemur til endurskoðunar eftir tvö ár því að það er nauðsynlegt til þess að hægt sé að bjóða út verk og standa að henni á þessu ári að unnt sé að koma henni til afgreiðslu í þinginu eins og hv. þm. þekkja. Ég ætla ekki að hafa um þessa ályktun fleiri orð en ítreka þakkir mínar fyrir þann breiða stuðning sem þáltill. hefur í þingsalnum.