Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 17:27:18 (3571)

1996-03-05 17:27:18# 120. lþ. 100.6 fundur 301. mál: #A meðferð opinberra mála# (dómtúlkar, handteknir menn og gæsluvarðhaldsfangar) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[17:27]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála. Um er að ræða þríþættar breytingar á lögunum. Þær miða m.a. að því að bæta réttarstöðu sakborninga og gæsluvarðhaldsfanga og færa íslenska löggjöf til samræmis við alþjóðlegar samningsskuldbindingar um mannréttindi.

Í fyrsta lagi er í 1. gr. frv. gerð tillaga um nýja málsgrein við 13. gr. laganna þess efnis að þóknun til handa dómtúlki eða þýðanda sem aðstoðar sakborning, vitni eða aðra skýrslugjöf fyrir dómi skuli ákveðin af dómara og greiðast úr ríkissjóði.

Einnig er lagt til í a-lið 3. gr. frv. að við 5. mgr. 69. gr. laganna bætist ákvæði um að lögreglustjóri eða löglærður starfsmaður hans ákveði þóknun túlks eða þýðanda sem aðstoðar sakborning við yfirheyrslur hjá lögreglu. Núgildandi lög gera þegar ráð fyrir að aðstoð túlks sé veitt við þessar aðstæður og að kostnaður vegna starfa þeirra teljist ekki til sakarkostnaðar heldur verði greiddur af ríkissjóði. Er þessi skipan í samræmi við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 14. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Hins vegar hefur skort í lögum um meðferð opinberra mála nánari reglur um hvernig þóknun túlka og þýðenda er ákveðin.

Markmið viðbótarákvæðis við 13. gr. laganna svo og við 5. mgr. 69. gr. laganna er að bæta úr þessu. Auk þess sem þar er skýrlega kveðið á um að kostnaður vegna þessara starfa greiðist úr ríkissjóði eru ráðgerðar skýrari reglur um ákvörðun þóknunar til þessara aðila. Þykir í því sambandi eðlilegast að sömu reglur gildi og þegar þóknun er ákveðin fyrir störf réttargæslumanna sakborninga í opinberu máli og stefna framangreindar tillögur frv. að því markmiði.

Samhliða tillögum um að setja skýrar reglur um ákvörðun þóknunar til dómtúlka og skjalaþýðenda er ráðgert í 6. gr. frv. að 5. gr. laga nr. 32 frá 1914 um heimild fyrir Stjórnarráðið til þess að veita mönnum rétt til þess að vera dómtúlkar og skjalaþýðendur verði felld niður. Í umræddu ákvæði er kveðið á um að Stjórnarráðið semji og setji verðskrá fyrir verk dómtúlka og skjalaþýðenda. Í ljósi almennra samkeppnissjónarmiða þykir ekki eðlilegt að opinber aðili setji ákveðna gjaldskrá fyrir þessi störf og hefur Samkeppnisstofnun m.a. lýst því áliti sínu að framangreint lagaákvæði stríði gegn samkeppnislögum. Af þessum ástæðum er hér gert tillaga um að þetta lagaákvæði verði fellt niður.

Annar meginþáttur frv. varðar heimildir dómsmrh. til þess að setja nánari reglur um rétt handtekins manns til að hafa samband við vandamenn sína, um framkvæmd yfirheyrslna hjá lögreglu og um skráningu á atriðum er varða vistun á handteknum mönnum. Tillögur um lagabreytingar í þessu skyni koma fram í 2. gr., í b-lið 3. gr. og 4. gr. frv. Helsta hvatann að þessum brtt. má rekja til skýrslu sem Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sendi ríkisstjórn Íslands í mars á síðasta ári. Skýrslan var gerð í framhaldi af heimsókn nefndarinnar hingað til lands sumarið 1993 þar sem hún kannaði aðstæður í nokkrum fangelsum og lögreglustöðvum hér á landi. Í skýrslunni lagði nefndin m.a. til að skýrari reglur yrðu settar hér á landi um tilkynningarrétt handtekins manns til aðstandenda sinna og vernd þess réttar svo og skilgreiningu á aðstæðum þar sem heimilt yrði að meina manni að njóta slíks réttar.

Einnig lagði nefndin til að til viðbótar reglum laganna um meðferð opinberra mála um yfirheyrslur væri rétt að semja sérstakar siðareglur til handa íslenskri lögreglu með nánari útfærslu á meginreglum laganna. Loks lagði nefndin til að ítarlegri reglur yrðu settar um samræmda skráningu á vistun manna í fangageymslum lögreglu. Nánari lýsingu og athugasemdum nefndarinnar um þetta efni má finna í fskj. I við frv.

Með tillögum frv. er komið til móts við áðurgreindar óskir Evrópunefndarinnar um varnir gegn pyndingum. Það er annars vegar gert með því að leggja til í 2. gr. frv. viðbætur við 1. mgr. 32. gr. laga um meðferð opinberra mála, þar sem fram kemur skýr regla um tilkynningarrétt handtekins manns, og hins vegar í 2. gr., b-lið 3. gr. og 4. gr. ráðgerðar reglugerðarheimildir til handa dómsmrh. um framangreinda málaflokka sem nefndin gerði athugasemdir við. Í framhaldinu verður unnið að því í dómsmrn. að semja og útfæra nánar þessar reglur.

[17:30]

Þriðji og síðasti þáttur frv. lýtur að heimild gæsluvarðhaldsfanga til þess að senda tilteknum aðilum bréf án þess að efni þeirra sé athugað. Þessar brtt. má einnig rekja til athugasemda nefndarinnar um varnir gegn pyndingum en nánari lýsingu á þeim má finna í fylgiskjali með frv.

Í 5. gr. frv. er síðan gerð tillaga um að ný málsgrein bætist við 108. gr. laga um meðferð opinberra mála, þess efnis að gæsluvarðhaldsfangar megi taka við og senda bréf til dómsstóla, dómsmrh. og umboðsmanns Alþingis og verjanda síns án þess að efni þeirra sé athugað. Fram til þessa hefur þessi réttur gæsluvarðhaldsfanga ekki verið fortakslaus þar sem 1. mrg. 108. gr. laganna kveður á um að sá sem stýrir rannsókn geti látið athuga efni bréfa eða annarra skjala frá gæsluvarðhaldsfanga og kyrrsett þau ef nauðsyn ber til í þágu rannsóknar. Þannig hafa trúnaðarsamskipti við ákveðin stjórnsýslu- og dómsmálayfirvöld ekki verið undanþegin í þessu tilliti. Er markmið 5. gr. frv. að setja skýra reglu þess efnis. Að öðru leyti er þar ráðgert að dómsmrh. verði heimilt að setja í reglugerð ákvæði um að gæsluvarðhaldsfangar megi senda öðrum opinberum aðilum eða einstaklingum bréf án þess að efni þeirra sé athugað. Í slíka reglugerð yrði væntanlega m.a. settar reglur um trúnaðarsamskipti gæsluvarðhaldsfanga við alþjóðlegar stofnanir um mannréttindavernd svo sem mannréttindanefnd Evrópu.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.