Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 17:34:10 (3572)

1996-03-05 17:34:10# 120. lþ. 100.6 fundur 301. mál: #A meðferð opinberra mála# (dómtúlkar, handteknir menn og gæsluvarðhaldsfangar) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[17:34]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á lögunum sem hér eru til umræðu eru allar heldur til bóta. Vitnað er til nefndar sem heimsótti Ísland og skýrslu um þá heimsókn. Mig langar að vita hvort jafnframt hafi farið fram úttekt á fangelsum landsins og þeim lögum sem eru í gildi um fangelsi og fangavist og hvort fyrirhugað er að leggja fram breytingar á lögum um fangelsi og fangavist. Ég man ekki hvort það var á málaskrá sem birtist frá hæstv. ríkisstjórn núna á þessu þingi en a.m.k. fyrir einu eða tveimur árum eða svo var boðað að lagt yrði fram frv. um breytingu á lögum um fangelsi og fangavist. Ég vildi gjarnan heyra hjá hæstv. ráðherra af þessu tilefni hvort það frv. verður lagt fram og hvort Evrópunefndin um varnir gegn pyntingum og vanvirðandi meðferð gerði einhverjar athugasemdir um fangelsi landsins og þau lög sem eru í gildi um fangelsi og fangavist og þá kannski sérstaklega hvort gerðar hafa verið athugasemdir við fangelsið í Síðumúla þar sem er um gæsluvarðhaldsvist að ræða, og fangelsið við Skólavörðustíg. Fullnægja þessir staðir þeim kröfum sem gerðar eru með tilliti til mannréttinda? Telur hæstv. ráðherra að þar sem í núgildandi lögum um fangelsi og fangavist er fjallað um réttinn til vinnu, réttinn til náms og réttinn til tómstundastarfs sé úrbóta þörf, hvort sem um er að ræða gæsluvarðhaldsfanga eða aðra fanga, þannig að hægt sé að framfylgja þeim ákvæðum sem eru í núgildandi lögum? En fyrst og fremst spyr ég hæstv. ráðherra hvort nefndin gerði athugasemdir um fangelsin og um þau lög sem eru í gildi.