Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 17:41:05 (3574)

1996-03-05 17:41:05# 120. lþ. 100.6 fundur 301. mál: #A meðferð opinberra mála# (dómtúlkar, handteknir menn og gæsluvarðhaldsfangar) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[17:41]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. 5. þm. Suðurl. er það að segja að nefndin sem hér um ræðir, Evrópunefndin, gerði athuganir á fangelsunum með tilliti til starfssviðs síns. Það er vitnað til athugasemda hennar í athugasemdum með frv. Við teljum okkur hafa brugðist við þeim athugasemdum sem hún kom fram með, m.a. með þessu frv. og nokkrum úrbótum, m.a. á húsnæði því sem hér um ræðir.

Varðandi fangelsin, sérstaklega Síðumúlafangelsið og fangelsið við Skólavörðustíg, liggur fyrir að að mati íslenskra stjórnvalda er það húsnæði í báðum tilvikum ófullnægjandi og að því stefnt að byggja nýtt fangelsi í Reykjavík sem gæsluvarðhaldsfangelsi og móttökufangelsi. Við höfum nýlega lokið við að byggja nýjan áfanga við fangelsið á Litla-Hrauni sem bætti mjög úr brýnni þörf.

Það er svo rétt sem hv. þm. bendir á að það hefur staðið til að koma fram nýrri fangelsismálalöggjöf og það er eitt af fjölmörgum verkefnum sem við þurfum að fást við. Eins og hv. þm. hafa tekið eftir er mikill fjöldi lagabreytinga sem dómsmrh. þarf að beita sér fyrir og þetta er eitt af þeim verkefnum sem bíður úrlausnar en er þörf á.