Helgidagafriður

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 17:43:22 (3575)

1996-03-05 17:43:22# 120. lþ. 100.7 fundur 315. mál: #A helgidagafriður# (heildarlög) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[17:43]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Núgildandi lög um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar eru sem kunnugt er frá árinu 1926 og eru um margt orðin úrelt. Miðast þau í efni sínu við annað þjóðfélagsástand en við búum við í dag. Í tveimur álitum umboðsmanns Alþingis árið 1995 var vikið að ákvæðum laganna. Í áliti sínu frá 25. apríl 1995 beindi umboðsmaður því til dóms- og kirkjumrn. að það hygði að því hvort ástæða væri til breytinga á nefndum lögum. Í sama áliti vakti umboðsmaður athygli á nauðsyn þess að tryggja samræmi í framkvæmd laganna. Í álitinu er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að lögin standi ekki í vegi almennrar veitingastarfsemi á páskadegi. Með hliðsjón af þessu skipaði ég á síðasta sumri nefnd sem falið var að endurskoða þessi lög. Nefndarmenn voru Lára Margrét Ragnarsdóttir alþingismaður, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Valgerður Sverrisdóttir alþingismaður og séra Hjálmar Jónsson alþingismaður. Nefndin skilaði tillögum sínum í formi lagafrv. 29. jan. sl. Drög að lagafrv. lágu fyrir í október 1995 og voru þau lögð fyrir 26. kirkjuþing sem ályktaði um frumvarpsdrögin. Í frv. er að ýmsu leyti að finna skýrari og rýmri reglur en nú gilda um það hvaða starfsemi er heimil á helgidögum þjóðkirkjunnar. Þess er hins vegar að geta að reglur frv. eru með þeim hætti að eftir sem áður mun reyna á túlkun varðandi ýmsa starfsemi. Verður það áfram hlutverk dóms- og kirkjumrn. og einstakra lögreglustjóra að leysa úr slíkum málum sem upp kunna að koma.

[17:45]

Í 1. gr. frv. kemur fram að um helgidagafrið sé mælt í því skyni að vernda helgihald og til að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar innan þeirra marka er greinir í frv. Með þessu er sett það markmið sem einnig er ítrekað í greinargerð með athugasemdum með frv. að almenningur hafi frið á tilteknum helgidögum en jafnframt sé tryggt að innan tiltekinna marka verði unnt að bjóða upp á þjónustu og afþreyingu þá daga sem hér um ræðir. Í því skyni er í 5. gr. frv. mælt fyrir um undanþágur frá ákvæðum laganna.

Í 2. gr. frv. eru taldir upp þeir helgidagar sem lagt er til að verði lögfestir helgidagar þjóðkirkjunnar. Um er að ræða sömu daga og taldir eru vera helgidagar samkvæmt gildandi lögum, en þar eru þeir hins vegar ekki tilgreindir sérstaklega. Það nýmæli er hins vegar lagt til að helgi föstudagsins langa og jóladags nái til kl. 6 að morgni næsta dags en það er gert í því skyni að styrkja helgi þessara daga frá því sem nú er svo sem nánar er skýrt í athugasemdum með frv.

Í 4. gr. frv. er að finna almennt ákvæði um starfsemi á helgidögum þjóðkirkjunnar. Kemur þar fram það nýmæli að lagt er til að á sunnudögum, öðrum degi jóla, nýjársdegi, skírdegi, öðrum degi páska, uppstigningardegi og öðrum degi hvítasunnu verði öll almenn starfsemi í þjóðfélaginu heimil án sérstakra takmarkana. Hvað varðar jóladag, föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag er lagt til að skemmtanir og einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum verði almennt bannaðar, svo og verslana- og viðskiptastarfsemi. Hið sama gildir um aðfangadag jóla eftir kl. 18.00.

Í 5. gr. frv. er að finna undanþágur frá ákvæðum 4. gr. Er þar að finna ákvæði um þá starfsemi sem heimilt er að stunda þrátt fyrir ákvæði 4. gr. Er í ákvæðinu að finna nokkra rýmkun á undanþágum frá því sem er samkvæmt gildandi lögum. Í fyrsta lagi er lagt til að ýmis verslunar- og þjónustustarfsemi verði heimil á þeim dögum sem bann 4. gr. nær til. Er þar um nokkra breytingu að ræða frá því sem er samkvæmt gildandi lögum en lagt er til að undanþágan nái m.a. til söluturna og myndbandaleiga. Er þessi undanþága sérstaklega skýrð í athugasemdum með frv.

Í öðru lagi er lagt til að íþrótta- og útivistarstarfsemi verði heimil á greindum dögum án takmarkana. Þykir ekki ástæða til að takmarka slíka starfsemi á þessum dögum.

Í þriðja lagi er lagt til að ýmis menningarstarfsemi verði undanþegin banni því er greinir í 4. gr. Nefnd sú sem samdi frv. setti í upphafi það markmið að á helgidögum þjóðkirkjunnar ætti fremur að stuðla að því að fram fari menningarstarfsemi en hitt. Er lagt til að slík starfsemi verði heimil eftir kl. 15 á greindum dögum.

Í fjórða lagi er í 5. gr. að finna ákvæði sem er nýmæli. Það er lagt til að heimilt verði að dansleikir sem hefjast að kvöldi laugardags fyrir páska og hvítasunnu standi til kl. 3 aðfararnótt páskadags og hvítasunnudags. Er þetta lagt til til rýmkunar með tilliti til þess að í auknum mæli er um að ræða skipulagðar skemmtanir þessa daga vítt og breitt um landið, gjarnan í tengslum við íþrótta- og útivistarstarfsemi.

Samkvæmt 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því að heimilt verði fyrir lögreglustjóra að veita undanþágur frá ákvæðum 5. gr. að því er varðar tímasetningar og að því er varðar bann við einkasamkvæmum á opinberum veitingastöðum sem fram kemur í 4. gr. Undanþáguákvæði þetta er bundið við 5. gr. en nær hins vegar ekki til 4. gr. að öðru leyti en því er varðar einkasamkvæmi. Í þessu felst að lagt er til að lögreglustjóra verði ekki heimilt að veita undaþágur frá skemmtunum sem annars eru bannaðar skv. 4. gr. Þótti rétt að setja þetta fram með þessum hætti til að festa framkvæmdina í sessi þannig að hún yrði sem líkust á milli einstakra umdæma.

Nokkur umræða hefur stundum farið fram um veitinga- og gististarfsemi á helgidögum þjóðkirkjunnar, einkum um stórhátíðir. Þess er að geta í þessu sambandi að almenn veitingastarfsemi er heimil alla þá daga er greinir í frv. Hefur svo verið um langa hríð. Standa því gildandi lög um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar ekki því í vegi að almenn veitingastarfsemi fari fram á þessum dögum og eru ekki lagðar til breytingar á því í frv.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir meginefni frv. og tilgangi og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.