Staðfest samvist

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 18:22:04 (3584)

1996-03-05 18:22:04# 120. lþ. 100.8 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[18:22]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. tók svo til orða á einum stað í ræðu sinni: Löggjöfin hefur verið þögul um málefni samkynhneigðra. Það eru sannarlega orð að sönnu. Það er ekki bara löggjöfin sem hefur verið þögul um málefni þeirra heldur má heita að allt sem lýtur að hinu opinbera hafi verið þögult um málefni samkynhneigðra. Ég minnist þess er mér hafði tekist að ganga í gegnum 20 ára skólagöngu, í gegnum íslenska menntakerfið og var orðinn fulltíða maður, þegar ég í fyrsta skipti las um það sem maður hefði þó gert ráð fyrir að væri kennt í sögubókum, að helför Hitlers laut ekki bara að gyðingum, ekki bara að kommúnistum og jafnaðarmönnum heldur voru 800.000 samkynhneigðir Evrópubúar líka drepnir. Það var ekki vegna þess að þeir hefðu neitt gert af sér heldur einungis vegna þess að kynhneigð þeirra var öðruvísi heldur en hreinleiki hinnar arísku stefnu bauð upp á. Þetta tek ég nú hér sem dæmi um það hve mikið vantar upp á að málefnum samkynhneigðra séu gerð rækileg skil t.d. innan skólakerfisins. Ég held að hægt væri að uppræta mikið af þeim fordómum sem þeir sæta ef það væri undinn bugur að þessari þögn sem er ekki bara í löggjöfinni heldur líka í skólakerfinu.

Herra forseti. Ég get tekið undir það sem menn hafa sagt hér um frv. Ég er því hlynntur í öllum meginatriðum. Ég tel reyndar að það sé aðall sérhverrar ríkisstjórnar að leggja fram sem fæst frv. og miklu betur væri hin íslenska þjóð stödd ef þessi ríkisstjórn sem nú situr hefði lagt fram miklu færri frv. en hún hefur gert. Hins vegar eru á þessu gleðilegar undantekningar og þær tvær sem mér koma helst til hugar eru frv. sem hæstv. dómsmrh. hefur flutt. Annað frv. sem lýtur að tæknifrjóvgun og hann hefur þegar lagt fram brýtur blað vegna þess að það gengur lengra en nokkur samsvarandi löggjöf sem ég þekki annars staðar í heiminum. Þetta frv. sem hér liggur fyrir og við erum að ræða í dag er líka sögulegt vegna þess að mér er heldur ekki kunnugt um að það séu nokkurs staðar í gildi jafnframsækin lög og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Eins og hæstv. dómsmrh. gat um þá er í 5. gr. frv. gert ráð fyrir því að lögfest verði sameiginleg forsjá samkynhneigðra einstaklinga yfir börnum þeirra. Þarna á hæstv. dómsmrh. sérstakt lof skilið. Ég rifja það upp að í þeirri nefnd sem var eiginlega ráðgjafahópur hæstv. ráðherra, nefnd sem skipuð var á grundvelli þingsályktunar sem var samþykkt 1992 í maí, ef ég man rétt, voru lagðir til ákveðnir hlutir. Sú nefnd skiptist í meiri hluta og minni hluta. Það sem meiri hlutinn lagði til var t.d. að að þessu sinni yrði ekki stigið svo stórt skref sem felst í sameiginlegri forsjá barna. Það ber ekki bara vott um framsýni heldur ákveðið hugrekki hjá hæstv. dómsmrh. að hann ákvað að stíga lengra fram en nefndin gerði ráð fyrir og ekki bara það, heldur má heita að hann hafi reimað á sig sjömílnaskóna áður en hann steig þetta skref.

Ég tel, herra forseti, að ef Alþingi ber gæfu til að lögfesta þetta ákvæði þá mun það ekki bara vera mikill áfangi í baráttu samkynhneigðra hér á Íslandi heldur einnig í alþjóðlegri réttindabaráttu þeirra í öðrum löndum.

Herra forseti. Ég rifja það upp að tilurð frv. má rekja til ársins 1992 þegar samþykkt var þál. sem ég drap á hér áðan. Mér er málið skylt að því leyti til að ég á að því örlítinn frumburðarrétt. Ég sat í ríkisstjórn sem hratt af stað þeirri vinnu sem núna er að koma inn í þingið að frumkvæði hæstv. dómsmrh. En ég var líka einn af flutningsmönnum þáltill. árið 1992 sem var samþykkt, sem var upphafið að þessu. Þá þáltill. flutti sem fyrsti flm. núverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og átti að henni allt frumkvæði.

Herra forseti. Ég tel að það sé nauðsynlegt að gera talsvert meira en það eitt sem felst í frv. Við erum, held ég, öll sammála um það að samkynhneigðir hafa jafnan verið tabú. Þeir hafa tilheyrt óhreinu börnunum hennar Evu og um þá hefur ekki fram á allra síðustu tíma mátt tala. Þeirra hagur hefur verið bestur þegar þeir hafa ekki látið á sér kræla, þegar þeir hafa ekki gert sig sýnilega. En um leið og þeir hafa látið á sér kræla, orðið sýnilegri sem einstaklingar eða sem hópur, hafa fordómarnir líka brotist upp á yfirborðið.

Við höfum stundum talað um að Ísland í krafti smæðar sinnar og einangrunar sé mildara og betra þjóðfélag þegar kemur að hvers kyns fordómum. Ég er ekki alveg viss um það. Ég er ekki alveg viss um að því er t.d. varðar samkynhneigða, að fordómarnir hafi komið eitthvað vægar fram hér en annars staðar. Ég held að flest okkar þekki dæmi um samkynhneigða sem hafa verið flæmdir úr starfi sökum kynhneigðar, misst húsnæði og svo mætti lengi telja og jafnvel þurft að sæta mjög grófu ofbeldi eins og dæmi eru um. Allt þetta þekki ég úr mínum kunningjahópi og ættingjahópi þannig að það er alveg klárt að þeir sem hafa hjartað þeim megin sem réttlætið er, styðja hvaðeina sem hægt er að grípa til til þess að draga úr þessum fordómum. Og það má velta því fyrir sér, herra forseti, hvernig við getum upprætt fordóma með lagasetningu. Er yfir höfuð hægt að uppræta fordóma með því að setja lög? Það má hugsa sér að það sé hægt með ýmsu móti. Til að mynda er hægt að festa í lagaramma að ákveðin fræðsla um málefni samkynhneigðra skuli t.d. verða partur af menntakerfinu. Það er líka hægt að sjá til þess á fjárlögum að veitt verði framlög til þess að þessi fræðsla verði möguleg.

Í annan stað er væntanlega hægt að dauðhreinsa löggjöfina sem nú gildir af öllu því sem felur í sér einhvers konar mismunun gagnvart þessum hópi sem þrátt fyrir allt er tiltölulega fámennur. Skiptir raunar ekki máli hvort hann er fámennur eða fjölmennur. Það þarf að uppræta þessa mismunun. Ég lít svo á að þetta frv. sem við erum að ræða hér í dag sé skref í þá átt.

Og í þriðja lagi er hægt að setja lög þar sem við hreinlega ákveðum að leggja blátt bann við ákveðinni áreitinni háttsemi gagnvart samkynhneigðum að viðlagðri refsingu. Allir þessir þrír þættir eru teknir fyrir, herra forseti, í skýrslunni sem var afrakstur vinnu nefndarinnar sem var sett á laggirnar af ríkisstjórninni í kjölfar þál. frá 1992. Allt það sem ríkisstjórnin gerir til að bæta stöðu samkynhneigðra hljótum við að mæla á þeirri stiku sem er lögð í þál. Þar, herra forseti, eru lykilorðin þau að nefndinni er falið að kanna lagalega, menningarlega og félagslega stöðu samkynhneigðs fólks. Og síðan segir, með leyfi forseta: ,,... og gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hverfi hér á landi.`` Frv. sem við erum að ræða í dag þarf að standast þetta próf. Það gerir það að mestu leyti, en þó ekki að öllu leyti.

[18:30]

Mig langar hins vegar, herra forseti, áður en ég vind mér í að ræða efni frv. sérstaklega, að rifja upp obbann af tillögum meiri hluta nefndarinnar, það sem allir nefndarmenn voru sammála um. Í fyrsta lagi var lagt til að sett yrðu lög um staðfesta samvist. Það liggur hérna fyrir. Ég óska hæstv. dómsmrh. til hamingju með þetta fína hugtak. Þetta er þjált í munni og afskaplega gott og ég er viss um að það á eftir að venjast mjög vel. En síðan er líka lagt til af hálfu meiri hluta nefndarinnar að hegningarlögum verði breytt þannig að það verði bannað að ráðast opinberlega með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt að samkynhneigðum sem hópi. Í þriðja lagi er líka lagt til að athugað verði hvort setja skuli ákvæði í hegningarlög eða önnur lög sem kveða á um að bannað verði að veita minnihlutahópum eins og samkynhneigðum tiltekna þjónustu eða tiltekna vöru.

Herra forseti. Mig langar til áður en lengra er haldið að spyrja hæstv. dómsmrh.: Hvar er þessi vinna stödd. Það má vera að hann hafi drepið á fyrra atriðið? (Dómsmrh.: Næsta mál á dagskrá.) Næsta mál á dagskrá. Þessi hæstv. dómsmrh. er einhver allra skjótasti dómsmrh. sem við höfum kynnst. Menn koma hér með óskir sínar og þær eru strax komnar á dagskrá. Herra forseti. Þar að auki er rætt um að það þurfi að fara í stóraukna fræðslu sem lýtur að því að skýra stöðu samkynhneigðra og nefndin varð t.d. sammála um að fræðsla um þau málefni yrði felld inn í námskrá í efstu bekkjum grunnskóla og að viðeigandi námsefni yrði undirbúið og kynnt með markvissum hætti. Þó að það sé ekki beinlínis á hinu faglega sviði hæstv. dómsmrh. að uppfylla það þá þætti mér vænt um ef hann gæti upplýst okkur í umræðunni á eftir hvernig stöðu þessa verks er háttað í dag. Er hún að einhverju leyti komin af stað?

Herra forseti. Ég ætla aðeins að drepa á þau atriði í frv. sem ég er ekki alls kostar sammála. Ég tel að frv. sjálft sé afskaplega merkilegt og ég tel að það skapi nánast vatnaskil í stöðu samkynhneigðra. En það er ýmislegt sem ég hefði viljað sjá betur fara og þar á ég fyrst og fremst við 1. mgr. 4. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra framkvæma staðfestingu á samvist.``

Nú er það svo eins og kemur fram í greinargerðinni og kom fram í máli hæstv. dómsmrh. að gert er ráð fyrir því að staðfest samvist verði að öllu leyti eins og borgaraleg vígsla, þó með þeim undantekningum sem koma fram í 6. gr. En ég tek undir með hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að það væri æskilegt að stigið yrði skrefi lengra og heimilt yrði að staðfesta samvistina í kirkju. Nú er það svo að samkynhneigðir eru alveg eins og við, sumir eru trúaðir og aðrir ekki trúaðir. Sumir kunna að eiga þá ósk heitasta að fá þessa samvist staðfesta af kirkjulegu yfirvaldi, af fulltrúa þess drottins sem þeir trúa á. Mér finnst að það séu mannréttindi. Þá kem ég aftur, herra forseti, að því sem ég sagði að væri lykillinn, sem ég sagði að væri mælistikan á þann verknað sem ríkisstjórnin og aðrir beita sér fyrir til að afnema misréttið, þ.e. þar sem segir í fyrirmælum Alþingis til framkvæmdarvaldsins: ,,... nauðsynlegar aðgerðir til þess að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hverfi hér á landi.``

Ég tel að á meðan samkynhneigt fólk getur ekki fengið vígslu í kirkju sé ákveðið misrétti til staðar. Ég vísa til þess, herra forseti, að þegar biskup Íslands var beðinn um að gefa álit sitt á þingsályktunartillögunni 1992 sagði hann, með góðu leyfi herra forseta:

,,Þingsályktunartillaga þessi verður vonandi skref í þá átt að efla sanngirni og skilning gagnvart samkynhneigðu fólki, líðan þess og hlutskipti, því fátt er jafnógeðfellt og fjarlægt frumatriðum kristinnar siðfræði eins og útskúfun þeirra sem eru öðruvísi en fjöldinn.``

Ég get ekki skilið annað í því sem hér segir en að það sé fjarlægt frumatriðum kristinnar siðfræði að meina þeim samkynhneigðum sem vilja kirkjulega vígslu þann gerning. Nú er það svo að í yfirlýsingu kirkjuráðs, sem biskup birti fyrir hönd þess í svarbréfi til ráðuneytisins gagnvart þessu frumvarpi segir: ,,Kirkjan óskar alls ekki eftir því og telur það mjög vafasamt að mælt verði fyrir því í lögum að heimild sé veitt til kirkjulegrar vígslu samkynhneigðra.`` Ég segi það, herra forseti, þetta er ekki mín kirkja, þetta er ekki mitt kirkjuráð sem talar svona. Ég tel að menn ættu ekki að knýja presta til að gera hluti sem þeim eru á móti skapi. En ef það eru prestar sem vilja staðfesta sambúð samkynhneigðra með kirkjulegri vígslu tel ég að heimildin eigi að vera fyrir hendi. Menn skulu ekki láta sér koma til hugar að það muni aldrei verða til samkynhneigður prestur sem mundi vilja gera þetta, né að það hafi aldrei verið til samkynhneigður prestur eða biskup. Herra forseti, þarna finnst mér að frumvarpið gangi ekki nógu langt. Ég verð hins vegar að taka undir með hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni að það er æskilegt að ná sem mestum friði um þetta frumvarp vegna þess að þar er svo mikilvægt og stórt skref stigið, ég er sammála því. En mér finnst að það sem þarna kemur fram sé kirkjunni til vansa. Mér finnst að í þessu felist fordómar íslensku þjóðkirkjunnar gagnvart ákveðnum hópi innan samfélagsins. Ég velti því fyrir mér hvort þjóðkirkjan geti haft uppi skoðun af þessu tagi gagnvart tilteknum hópi þegnanna. Ég leyfi mér að efast um það, herra forseti.

Að því er lýtur síðan að 6. gr. vil ég segja eftirfarandi: Ég tel að barátta samkynhneigðra fyrir réttindum sínum sé mannréttindabarátta og ég nálgast hana með því hugarfari. Þar sem mig kann að greina á við baráttu þeirra stafar það af því að ég hef að einhverju leyti önnur viðhorf til mannréttinda eða til staðar sé þá skörun á mannréttindum ólíkra hópa.

Herra forseti. Mig langar að byrja á 3. mgr. 6. gr. þar sem er talað um ákvæði laga með sérreglur. Þetta eru ákvæði sem skipta litlu máli en ég geri mér ekki grein fyrir hvað átt er við vegna þess að eina dæmið sem er tekið er af 7. gr. laga um félagslega aðstoð, þ.e. um ekkjulífeyri. Ég man hins vegar ekki betur en að við hefðum einmitt verið að afnema það ákvæði fyrir síðustu jól. Ég þekki engin slík ákvæði og veit ekki hvort þetta er nauðsynlegt. Mér finnst merkilegt að einmitt það ákvæði sem ég held að við séum búin að afnema úr lögunum skuli vera tekið hér.

Herra forseti. Hér er ákveðin málsgrein um ættleiðingarlög sem mér finnst a.m.k. rétt af þessu tilefni að reifa lítillega. Ég sagði áðan: Ég nálgast þetta frá sjónarhóli mannréttinda. Ég tel að þegar um er að ræða samkynhneigða, sem munu í framtíðinni búa í staðfestri samvist samkvæmt þessu frv., kunni það að vera mannréttindi barnsins að sá aðilinn sem er ekki kynforeldri fái að ættleiða það. Það getur verið í þágu barnsins. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson drap þegar á það sem einhverjir aðrir þekkja mögulega líka að þetta er spurning um erfðir. Ég held að það sem við eigum að gera gagnvart ættleiðingum samkynhneigðra sé fyrst og fremst að hugsa um mannréttindi barnsins. Í þessu tilviki er það sannfæring mín að það sé í þágu réttinda barnsins að leyfa stjúpættleiðingar. Ég tel því eindregið að það eigi að leyfa stjúpættleiðingar samkynhneigðra og að þeirri niðurstöðu kemst ég frá sjónarhóli barnsins.

Herra forseti. Málið er ekki jafneinfalt þegar við komum t.d. að frumættleiðingum. Ég vísa til þess að í þessu frv. er vísað til barnasálfræðinga sem hafa ákveðnar hugmyndir um það. Mér þótti líka merkilegt þegar við vorum fyrir skömmu í heilbr.- og trn. að reifa skyld atriði og fengum þar fordómalausan og virtan siðfræðing til að tala við okkur um þau mál að þá greindi hann okkur frá því að það væri viðtekin skoðun meðal barnasálfræðinga að barni væri nauðsynlegt sakir framtíðarheilla þess og þróunar að hafa móðurímynd og auk þess klára föðurímynd. Ég segi það frá sjónarhóli barnsins tel ég að áður en menn geta tekið ákvarðanir um svona hluti þarf að leiða þetta til lykta. Við þurfum að fá skoðanir manna á því. Hins vegar tel ég að sú regla eigi almennt að gilda um frumættleiðingar og um samkynhneigða og aðra að þar eigi fyrst og fremst að byggja á mati eins og gert er í dag. Ég er einn þeirra sem hafa gengið í gegnum slíka ættleiðingu og það er talsvert mikið ferli sem er hrósvert af hálfu Íslendinga og dómsmrn. hvernig að því er staðið. Þar er það fagmanneskja, reyndar fleiri en ein, sem leggja mat á það hvort viðkomandi umsækjendur séu hæfir til að ættleiða barn. Ég er þeirrar skoðunar að þannig eigi reglan að vera almennt.

Að lokum, herra forseti. Ég tel að þetta frv. sé mjög af hinu góða og að það eigi eftir að bera hróður Íslands og hæstv. dómsmrh. til annarra landa og til ókomins tíma. Ég tel að þetta verði eitt af því sem hæstv. ráðherra verði minnst fyrir þegar hann gerist grár og gamall og horfir yfir liðinn feril. Þá getur hann hugsað til þessa frv. með nokkru stolti vegna þess að hann hafði kjarkinn til að stíga lengra en ráðgjafar hans gerðu ráð fyrir. Þeir skafankar sem ég hef nefnt á þessu frv. breyta engu um stuðning minn við það. Ég hefði talið að á þessu stigi væri æskilegra að hafa heimild inni ef prestur vill leyfa kirkjulega vígslu samkynhneigðra og ég tel að það væri í þágu barnsins að það væri líka heimild til stjúpættleiðingar enda lægi þá fyrir samþykki kynforeldrisins sem er utan hinnar staðfestu sambúðar.