Staðfest samvist

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 18:41:59 (3585)

1996-03-05 18:41:59# 120. lþ. 100.8 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[18:41]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um að þetta er gott frv. og eftir því sem ég hef hlerað mun þingheimur nokkuð styðja þetta mál og einmitt þau skref sem í því eru tekin. Ég hef í engu við að bæta það sem 15. þm. Reykv. sagði áðan og fór vel yfir það mál sem er til umræðu. En hann kom inn á frumættleiðingar og það er þess vegna, virðulegi forseti, sem ég óskaði að veita andsvar til að koma einu atriði á framfæri varðandi ættleiðingar sem mér finnst að hafi ekki verið fjallað um þegar rætt er um heimildir til handa samkynhneigðum að ættleiða börn. Ég tel að þegar fjallað er um ættleiðingar þessa fólks þá sjái menn fyrir sér að tveir samkynhneigðir í sambúð sæki um að fá að ættleiða barn og eigi að fara í gegnum það ferli sem hjón fara í gegnum og að í þetta skref séu menn ekki tilbúnir. Hins vegar er ekki fjallað um það þegar t.d. tvær konur búa saman og önnur þeirra á barn og þetta barn hefur verið í sambúðinni e.t.v. til margra ára og hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá lítur það barn á þær sem foreldri sín. Falli kynforeldrið frá er enginn réttur til handa barninu að fá að vera ættleitt af hinu foreldrinu sem það þekkir. Ég tel að þó svo menn séu sammála um að stíga ekki stærra skref en hér er gert í því frv. sem dómsmrh. hefur lagt fram þá sé mjög mikilvægt að líta á þetta réttindamál, nefnilega þegar barn er í slíkri sambúð og það sem þá getur gerst við fráfall.