Staðfest samvist

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 19:22:21 (3590)

1996-03-05 19:22:21# 120. lþ. 100.8 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[19:22]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta var með undarlegri ræðum sem ég hef heyrt fluttar í þingsölum hins háa Alþingis og væri hægt að gera við hana fjölmargar athugasemdir. En ég ætla einungis að láta nokkrar nægja á þeim stutta tíma sem ég hef.

Leið hv. þm. Árna Johnsens í mannréttindamálum, mannréttindavandanum eins og hann kallaði það --- ég átta mig reyndar ekki alveg á því hvað hann var að tala um vegna þess að það var ekki í samhengi við annað sem síðan kom fram í máli hans --- besta leiðin væri sú að taka ekki á neinu því að flækjan er svo stór, um leið og við fælum einum rétt, þá aukum við mismunun gagnvart öðrum. Þetta er kannski einföld lógík en því miður of einföld fyrir minn smekk, allt of einföld.

Hv. þm. minntist oft á hamingju heildarinnar, hamingju og velferð heildarinnar. Það væri hún sem ætti að ráða. Hann hafði nokkrum sinnum orð á því að frv. væri á kostnað heildarinnar. Hvað truflar það heildina að gera fólki í þessum hópi sem hér er verið að ræða um kleift að njóta þeirra sjálfsögðu réttinda í kjölfar sambúðar sinnar sem frv. gerir ráð fyrir? Hvað truflar það tilfinningar eða tilvist hv. þm. Árna Johnsens eða hinnar hamingjusömu heildar eins og hann kallar svo? Ég vil fá svör við því vegna þess að þau komu ekki fram í ræðunni.

Hv. þm. talaði um að frv. fæli í sér skammtímalausn í mannréttindamálum. Því vil ég spyrja hv. þm. hvernig hann telji hina varanlegu lausn eiga að vera. Vill hann að ráðið sé að því fólki sem er haldið því sem hann kallar kynvillu og það sé beinlínis bannað eða komið í veg fyrir að þetta fólk búi saman? Hver er hin varanlega lausn, hv. þm. Árni Johnsen?