Staðfest samvist

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 19:43:19 (3599)

1996-03-05 19:43:19# 120. lþ. 100.8 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[19:43]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá skörulegi málflutningur sem hv. þm. Einar Guðfinnsson flutti hér áðan var honum til mikils sóma. Ég tel afar mikilvægt að í jafnmiklu mannréttindamáli eins og hér um ræðir kveðji jafntraustur stjórnmálamaður og ég tel Einar Guðfinnsson vera, sér hljóðs með þessum hætti. Ég tel að hann hafi sýnt það eins og raunar fleiri í dag. En mér er það sérstaklega hugstætt þegar hann stóð hér upp og andmælti þeim orðum sem áður höfðu komið fram hjá samflokksmanni hans. Ég tel það afar mikilvægt að slíkur þingmaður komi hér og sýni kjark og þor. Við skulum minnast þess að við erum ekki bundin af neinu nema sannfæringu okkar.

Við sem höfum starfað í Evrópuráðinu og kynnst þar mannréttindasjónarmiðum höfum kynnst því sem við höfum heyrt þar; að þora og hafa kjark. Við erum ekki bundin af neinu nema sannfæringu okkar. Við þingmenn eigum að sýna að við þorum að stíga hér fram og að við óttumst ekki fordómana heldur berum einmitt frelsi og mannréttindi út til þjóðarinnar án þess að óttast að við verðum höfð að skotspæni þeirra sem aðrar skoðanir hafa.

Ég fagna þessu alveg sérstaklega og ítreka það sem kom fram í máli mínu og annarra. Þetta frv. er gott frv. Það má ganga lengra og ég vona að slíkt náist í nefndarstarfinu.