Staðfest samvist

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 19:47:12 (3601)

1996-03-05 19:47:12# 120. lþ. 100.8 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[19:47]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er enginn ágreiningur um það að að sjálfsögðu eiga allir sinn rétt til að láta í sér heyra og það er nákvæmlega það sem við erum að gera í dag. Við erum að ræða þessi mál vegna þess að við höfum þennan lýðræðislega rétt til að láta í okkur heyra og segja skoðanir okkar. Það sem ég hins vegar fann að því furðulega bréfi sem kom inn um mína bréfalúgu og ég hygg margra annarra þingmanna, var þessi tilraun til þess að klæða og fela fordóma í garð eins hóps, að búa þá búningi trúarlegs ívafs. Það að reyna að rökstyðja það með einhverri trúarlegri skírskotun að það sé rétt að meina ákveðnu fólki tiltekin réttindi sem við teljum sjálfsögð í lýðræðislegu nútímaþjóðfélagi, er ákaflega ljótur leikur, ákaflega ljótur leikur, ekki bara gegn því samkynhneigða fólki sem þessari orðræðu var beint gegn heldur ekki síður gagnvart því fólki sem tekur trú sína alvarlega og lítur svo á að því leytinu að hin kristna trú feli í sér kröfuna um umburðarlyndi. Það vottaði ekki fyrir minnstu örðu af umburðarlyndi eða virðingu fyrir skoðunum annarra í þessari samsuðu. Það var eingöngu verið með dulbúnum hætti að reyna að koma orðum að því að það væri eðlilegt út frá sjónarhóli Biblíunnar að samkynhneigt fólk hefði ekki sömu réttindi og við hin. Þetta er auðvitað forkastanlegur málflutningur sem er sjálfsagt í sjálfu sér að ræða, en hann styðst ekki við rök. Þetta eru upphrópanir sem engin leið er að styðja neinum trúarlegum eða heimspekilegum rökum.