Ómskoðanir

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 13:45:23 (3606)

1996-03-06 13:45:23# 120. lþ. 101.1 fundur 311. mál: #A ómskoðanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[13:45]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin en jafnframt lýsa miklum vonbrigðum með þau því ég fékk ekki betur heyrt af hennar lýsingu en að þetta væri nú eiginlega allt í besta lagi. Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn minni eru einmitt ábendingar sem ég hef fengið frá kvensjúkdómalæknum. Ég hafði sambandi við nokkra þeirra í morgun til að heyra hvað þeir segðu um þetta. Þeim bar öllum saman um að þessi kvóti væri búinn þegar komið er rétt fram yfir mitt ár eins og ég gat um í fyrri ræðu minni og það að hafa svona takmarkaðan kvóta leiddi til þess að það yrði að vísa sjúklingum annað sem hefði aukinn kostnað í för með sér. Ég vil því taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að hér er einmitt um aðgerð að ræða sem á að takmarka kostnað en leiðir af sér aukinn kostnað annars staðar.

Þau bréf sem ég hef undir höndum eru einmitt tilmæli til Tryggingastofnunar ríkisins um að endurskoða gjaldskrár og samninga milli sérfræðilækna og Tryggingastofnunar ekki síst vegna þess að viðkomandi læknum finnst að það sé verið að ýta þeim aftur á bak í þróuninni og þeim sé ekki gert kleift að nýta þá tækni sem þeir ráða yfir og sem þeir telja að komi í veg fyrir frekari sjúkdóma því þeir greinist fyrr. Það þýðir minni kostnað í heilbrigðiskerfinu og auðvitað meiri möguleika á því að viðkomandi sjúklingur nái bata. Þegar konur fara í skoðun til síns kvensjúkdómalæknis er það líka ákveðið öryggis- og eftirlitsatriði að fá fullkomna skoðun þó auðvitað eigi ekki að beita þeim í óhófi. En þessari skoðun er beitt við ýmis tækifæri. Það er ekki bara þegar um þungun er að ræða heldur er þetta almenn skoðun sem konur fá.

Ég skora á hæstv. heilbrrh. að beita sér í þessu máli. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir konur og þeirra heilbrigði og heilsu. Þarna held ég að við séum með enn eitt dæmi um misheppnaða sparnaðartilraun.