Meðferð trúnaðarupplýsinga

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 13:51:23 (3609)

1996-03-06 13:51:23# 120. lþ. 101.2 fundur 342. mál: #A meðferð trúnaðarupplýsinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[13:51]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í lögum er ekki að finna reglur þar sem sérstaklega er fjallað um meðferð trúnaðarupplýsinga um einstaklinga í samskiptum opinberra stofnana. Í þessu efni verður því að vísa til almennra ákvæða í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, almennra ákvæða laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, sérákvæða í lögum og reglugerðum svo og meginreglu stjórnsýsluréttarins. Um opinbera starfsmenn gildir sú almenna regla sem fram kemur í 32. gr. laga 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem segir:

,,Hverjum starfsmanni er skylt að gæta þagmælsku um atriði, er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli málsins.``

Regla þessi hefur almennt gildi og gildir því jafnt í samskiptum opinberra starfsmanna við einstaklinga, fyrirtæki eða aðrar opinberar stofnanir.

Í lögunum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989, er að finna almennar reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga. Í II. kafla laganna kemur það fram að kerfisbundin skráning persónuupplýsinga sé því aðeins heimil að hún teljist eðlilegur þáttur í starfsemi viðkomandi aðila og taki einungis til þeirra er tengist starfi hans eða verksviði. Þar eru einnig taldar upp þær upplýsingar sem óheimilt er að skrá og varða einkamálefni einstaklings nema heimild sé til þess í lögum eða viðkomandi hafi sjálfur látið umræddar upplýsingar í té.

Í 5. gr. laganna segir að án sérstakrar heimildar í lögum sé eigi heimilt að skýra frá framangreindum upplýsingum nema með samþykki hins skráða eða einhvers sem heimild hefur til að skuldbinda hann. Heimilt er þó með samþykki tölvunefndar að skýra frá nefndum upplýsingum ef sýnt þykir að brýnir almannahagsmunir eða hagsmunir einstaklinga krefjast þess.

Vegna sérstakrar tilvísunar fyrirspyrjanda til mála er varða hjónaskilnaði, forsjárdeilur og rannsókn opinberra mála skal tekið fram að þær almennu reglur sem nefndar voru hér að framan gilda að sjálfsögðu við meðferð slíkra mála. Stjórnvald sem slík mál hefur til meðferðar í þessum tilvikum, sýslumannsembætti, lögregla og dómsmrn., gefur því aðeins öðru stjórnvaldi trúnaðarupplýsingar um einstaklinga sem komið hafa fram við meðferð málsins, að það stjórnvald sem æskir upplýsinganna hafi lagaheimild til þess að óska eftir umræddum upplýsingum eða aðili máls veiti samþykki sitt fyrir því að umræddum upplýsingum sé komið á framfæri.

Sem dæmi um slíkt ótvírætt lagaákvæði má nefna þær heimildir sem barnaverndaryfirvöld hafa samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna til að kalla eftir upplýsingum og þá skyldu sem hvílir á þeim sem stöðu sinnar vegna hafa afskipti af málefnum barna og ungmenna til að skýra barnaverndaryfirvöldum frá óviðunandi misfellum á uppeldi og aðbúð barna eða ungmenna eins og það er orðað í 13. gr. laganna. Tekið er fram í umræddri grein að þessi tilkynningar- og upplýsingaskylda gangi framar ákvæðum laga um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta. Sérstök tilkynningarskylda hvílir á lögreglu skv. 14. gr. umræddra laga, m.a. vegna rannsóknar á opinberu máli þar sem börn eru annaðhvort þolendur eða gerendur. Í 16. gr. kemur fram að lögreglu er skylt að hafa samvinnu við barnaverndarnefndir og veita þeim aðstoð við úrlausn barnaverndarmála.

Einnig má benda á lög um umboðsmann barna en þar segir í 5. gr.: ,,Stjórnvöldum er skylt þrátt fyrir þagnarskyldu að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu.``

Í lögum um umboðsmann Alþingis segir í 7. gr. að hann geti krafið stjórnvöld um þær upplýsingar sem hann þarfnast vegna starfs síns. Að því er varðar forsjárdeilur og hjúskaparmál sérstaklega má benda fyrirspyrjanda á að í reglugerð nr. 231/1992, um stjórnsýslumeðferð mála samkvæmt barnalögum, segir svo í 16. gr.

,,Sýslumanni er óheimilt, nema lög mæli annan veg, að afhenda úrskurð öðrum en aðilum máls. Þó má láta barnaverndaryfirvöldum eða sérstaklega tilnefndum tilsjónarmanni í té afrit úrskurðar, hafi þeim verið falið að liðsinna við framkvæmd úrskurðar um umgengni. Tryggingastofnun ríkisins skal enn fremur látið í té afrit úrskurðarorðs um meðlag er stofnunin greiðir, sé þess óskað, ásamt upplýsingum um kennitölu og heimilisfang hvors aðila og barns eða barna. Enn fremur geta opinberir aðilar, eftir skriflegri rökstuddri beiðni, fengið afrit úrskurðar, ef nauðsyn þykir bera til.``

Svipað ákvæði er að finna í 14. gr. reglugerðar nr. 230/1992 um stjórnsýslumeðferð hjúskaparmála.

Að lokum má benda fyrirspyrjanda á þá meginreglu stjórnsýsluréttarins að opinber starfsmaður hefur ekki heimild til þess í skjóli starfa síns að afla sér trúnaðarupplýsinga er ekki hafa þýðingu fyrir verkefni sem honum eru falin í starfi. Þessi meginregla hefur verið staðfest að umboðsmanni Alþingis samanber skýrslu umboðsmanns til Alþingis frá árinu 1992 á bls. 236.