Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 14:29:42 (3618)

1996-03-06 14:29:42# 120. lþ. 102.10 fundur 333. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám, samkynhneigð) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:29]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka þá málefnalegu umræðu sem hefur farið fram um efnisákvæði frv. og eins þá spurningu sem hefur verið vakin upp hvort tímabært sé að efna til heildarendurskoðunar á hegningarlögunum. Hegningarlögin eru vitaskuld orðin gömul, að stofni til og síðasta heildargerð þeirra er frá 1940 eins og kunnugt er og allar götur síðan hafa verið gerðar fjölmargar breytingar á þeim. Refsirétturinn er í stöðugri þróun og þess vegna hygg ég að það verði ávallt þannig að á þeim tíma sem hlýtur að líða á milli heildarendurskoðunar á þessum viðamikla lagabálki þurfi löggjafarvaldið að gera jafnt og þétt breytingar á lögunum í samræmi við þróun á þessu réttarsviði. Breytingar eins og þær sem við erum að fjalla um hér þola oft ekki bið eftir heildarendurskoðun og menn þurfa að meta þá brýnu hagsmuni sem eru í húfi að koma fram réttarbótum þó að full þörf geti verið á heildarendurskoðun. Ég tek undir það sjónarmið að það fer að koma tími á að heildarendurskoðun fari fram á lögunum. Það verður mjög umfangsmikið verk og tímafrekt. Þó að slíkri endurskoðun verði hleypt af stokkunum geri ég ráð fyrir að menn geti ekki komist hjá því að gera breytingar á meðan á hegningarlögunum vegna þess að margar þeirra þola oft ekki bið. En þetta er vissulega eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að fara að horfa til.

Varðandi þær athugasemdir sem hafa komið fram um einstök efnisákvæði frv. fór fram af hálfu höfunda frv. á meðan það var á vinnslustigi í ráðuneytinu þó nokkur skoðun á málinu og hvaða sjónarmið hafa legið að baki við gerð sams konar löggjafar á þeim Norðurlöndum sem þegar hafa lögfest ákvæði af þessu tagi. Eitt helsta álitaefnið var einmitt hvar draga ætti mörkin og hvort ætti að gera hvers kyns barnaklám refsivert eða vörslu hvers kyns barnakláms refsiverða eða draga mörkin við gróft barnaklám. Það er alveg nauðsynlegt líka vegna þessarar umræðu að hafa það í huga, ekki síst vegna þeirra orða hv. 15. þm. Reykv. að hér er verið að fjalla um vörslu. Það er ekki verið að fjalla um framleiðslu, dreifingu eða klám sem er refsivert á grundvelli annarra ákvæða gildandi hegningarlaga heldur vörsluna eina. Það er mjög sérstakt í refsirétti að varslan ein út af fyrir sig án þess að verið sé með henni að brjóta beint gegn öðrum sé refsiverð. Þess vegna getur verið vandasamara að draga markalínurnar í þessu efni. Í athugasemdum með frv. koma fram þau sjónarmið sem ég hygg að séu ekki síst komin frá danskri reynslu í þessu efni en þó held ég að aðalsjónarmiðið sem þarna lá að baki hafi verið spurningin um sönnunarfærsluna og þá spurningin um það hvort lagaákvæðið geti orðið virkt.

Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þarna eru mikil álitaefni á ferðinni. Það var engan veginn alveg skýrt hvor leiðin væri heppilegri í þessu efni en við kusum á endanum að fara þessa leið fyrst og fremst með skírskotun til þeirra raka að það væri líklegra á grundvelli þessara upplýsinga sem við höfum, einkanlega frá Danmörku, að ákvæðið geti orðið virkara. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað að það er mjög eðlilegt að þessar skilgreiningar séu skoðaðar og menn meti það í meðferð í þinginu hvort þessi skilgreining á að vera víðtækari. Það var verulegt álitaefni við samningu frv. og þessi varð niðurstaðan. En ég tel fullkomlega eðlilegt og málefnalegt að menn skoði þetta því að það geta verið rök fyrir báðum leiðunum í þessu efni.

Brot af þessu tagi vegna þeirrar spurningar sem kom fram beinast í eðli sínu gegn hópi. Enda þótt einn einstaklingur eigi í hlut þá beinast brotin að honum vegna þess að hann er hluti af ákveðnum hópi og getur notið refsiverndar samkvæmt lögunum á þeim forsendum.

Það er einnig rétt að taka fram vegna nál. um stöðu samkynhneigðra, sem varð tilefni þess að þessar breytingar voru gerðar, að það var einnig rætt um það að athuga hvort setja þyrfti sérstök ákvæði í hegningarlög sem verndaði samkynhneigða í þeim tilvikum þar sem þeim yrði hugsanlega neitað um aðgang að veitingastöðum eða tilteknum viðskiptum. Þetta atriði er til frekari athugunar fyrst og fremst vegna þess að það kostar nokkuð meiri vinnu að fara ofan í það mál. Við höfum í gildandi hegningarlögum ákvæði varðandi aðra minnihlutahópa eins og fram hefur komið þegar um er að ræða ógnanir eða smánun. Þess vegna er tiltölulega mjög einfalt að bæta nýjum hópi inn í það refsiréttarákvæði en í hinu tilvikinu þarf að semja algerlega nýtt ákvæði sem hlýtur að taka til miklu fleiri hópa. Það kostar meiri fræðilega vinnu áður en unnt er að koma með það í frumvarpsformi inn á Alþingi og það er ástæðan fyrir því að það er ekki í þessu frv.