Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 14:51:45 (3624)

1996-03-06 14:51:45# 120. lþ. 102.11 fundur 355. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:51]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Varðandi 2% söluþóknunina er ástæðan fyrir því að lagt er til að hún verði felld út mjög ákveðin ósk Samkeppnisstofnunar þar að lútandi. Ráðuneytið hefur átt í nokkrum bréfaskriftum við stofnuna þar um, fyrst og fremst til að fullvissa sig um að það sjónarmið sé sett fram af hálfu stofnunarinnar til þess að verja hagsmuni neytenda. Ráðuneytið leit svo á að það væri höfuðmarkmiðið með þessu ákvæði og við höfum fengið það staðfest að sjónarmið Samkeppnisstofnunar byggir fyrst og fremst að þessu leyti á því að með nýjum ákvæðum séu hagsmunir neytendanna betur tryggðir.

Með frv. er ekki verið að koma í veg fyrir að einstaklingar geri viðskipti sín á milli með sölu fasteigna en það er reynt að koma til móts við stöðu neytenda, ekki síst í þeim tilvikum þegar byggingaraðilar selja margar íbúðir. Þeir hafa auðvitað yfirburðastöðu yfir einstaka kaupendur í slíkum viðskiptum og mikilvægt að skjöl málsins séu yfirfarin af þeim aðilum sem til þess eru færir. Viðskiptin þurfa ekki að fara fram í gegnum fasteignasala. Það er aðeins gert ráð fyrir því að skjöl málsins séu yfirfarin af mönnum sem til þess hafa réttindi og það er hugsað sem frekari vernd fyrir neytendur.